05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Benedikt Sveinsson:

Jeg er á sama máli og þeir háttv. þingmenn, sem látið hafa í ljós þá skoðun sína, að þingsályktunartillagan, sem hroðað var fram í vetur, án þess að tími eða tækifæri gæfist til að umbæta hana til nokkurrar hlítar, sje mesti gallagripur. Það er nú orðin venja að hroða öllu af, og það er um þetta mál að segja, að það hafði ekki einungis mjög litla og skjóta meðferð í þinginu, heldur var það og frá öndverðu afarilla undirbúið af stjórninni. Þó sýndi þriðja skrifstofa stjórnarráðsins meiri dugnað en venja er til, í undirbúningi þessa máls, með því að þaðan var hafinn gauragangur mikill, til þess að knýja alla starfsmenn landsins til að heimta 70% launaviðbót. En ekki var undirbúningurinn þar að öðru leyti meiri nje ábyggilegri en svo, að eftir að búið var að telja þjóðinni trú um, að árbótin myndi ekki nema meiru en 200000 kr., þá hefir reynslan sýnt, að hún varð helmingi meiri, eða freklega það. Einnig var krítað nokkuð liðugt um það, hve landssjóður væri þá vel stæður.

Engu að síður var jeg á því, að rjett væri, að þeir starfsmenn landsins, sem lágt voru launaðir, fengju einhverja viðbót við laun sín, því að það var og er vitað, að þeir stóðu þá mun ver að vígi heldur en annar landslýður. Bændur og sjávarútvegsmenn höfðu beinlínis hagnað af ófriðnum fyrstu árin, og ýmsar aðrar stjettir sömuleiðis, en embættismennirnir urðu illa úti, og þá sjerstaklega þeir, sem lægst voru launaðir. Það var því sannsýnilegt, að þessir menn fengju nokkra uppbót á launum sínum, því fremur sem hagur landssjóðs hafði verið talinn mjög góður — mun betri en hann reyndist. En nú horfir þessu nokkuð annan veg við. Ástandið vegna ófriðarins hefir á engan hátt batnað síðan í vetur, en það er bersýnilegt, að hagur landssjóðs hefir stórum versnað. Harðærið er nú tekið að sverfa að öllum stjettum landsins. Nú hefir engin stjett í landinu lengur hag af styrjöldinni, heldur hafa allar stjettir beint tjón af henni. Verður því í mörg horn að líta, og því vandasamara að finna einhver úrræði, sem duga megi.

Mjer virðist þetta mál horfa svo við, að rjettast sje, að sama nefndin fjalli um öll þau vandræðamál, sem af styrjöldinni standa.

Mjer finst nú, þar sem hagur landssjóðs er óálitlegur, en hins vegar von um, að styrjöldin standi ekki lengi úr þessu, þá verði að fara mjög varlega í að eyða fje landssjóðs í árbætur eða launabætur. Það væri ilt að hleypa landinu í nýjar skuldir á þessum tímum, þegar þjóðin þarf sem fastast að sækja frelsiskröfur sínar í hendur danska valdsins. Og það er hætt við, að það yrði ekki til að flýta fyrir því, að þær kröfur næðu fram að ganga, ef þjóðin þyrfti jafnframt að rjetta hendurnar til danskra sjóða, og biðja þá um að veita sjer hallærislán. Því verður sem lengst að varast að setja þjóðina í nýjar skuldir við útlönd, nema ekki verði á annan hátt unt að afstýra beinu hallæri.