17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Það hefir orðið mitt hlutskifti, því miður, að hafa orð fyrir brtt. meiri hluta bjargráðanefndar í þessu máli, dýrtíðaruppbót til embættismanna.

Það er bót í máli, að jeg get verið stuttorður. — Nefndarálit meiri hlutans, sem skrifað hefir 1. þm. Reykv. (J. B.), er skýrt og glögt, og þar er gerð ljós grein fyrir afstöðu nefndarinnar til þessa máls og brtt. hennar. Tillögur meiri hl. eru í raun og veru bygðar á sama grundvelli og lögin frá 3. nóv. 1915, um dýrtíðaruppbót til embættismanna. Brtt. gera, eins og lögin, mun á einhleypum mönnum og hinum, er eiga fyrir heimili að sjá. Einhleypir menn, sem ekki hafa »dúk og disk«, fá þá enga dýrtíðaruppbót, ef árslaun þeirra eru yfir 2000 kr.

Tillögurnar gera ráð fyrir uppbót til barna embættismanna, eins og lögin, en að eins miklu hærri, 50 kr. á hvert barn, í staðinn fyrir 10 kr. í lögunum. Eftir tillögum meiri hlutans er ætlast til, að þeir fái enga dýrtíðaruppbót, er hafa framleiðslu, sem nokkru verulegu nemur, og er það einnig í samræmi við dýrtíðaruppbótarlögin frá 1915. Að vísu getur svo staðið á, að »mjótt sje mundangshófið« hjer, eða að erfitt þyki að ákveða um það, hvort einhver hafi framleiðslu svo að nokkru nemi, eða ekki. En stjórninni er vel treystandi til þess að beita þessu ákvæði varlega, ekki síður hjer eftir en samkvæmt lögunum frá 3. nóv. 1915. Meiri hl. væntir þess, að meðalhófs eins sje gætt í þessu efni, og að stjórnin veiti þeim enga uppbót, er hafa framleiðslu, er nokkru verulegu nemi.

Tillögur meiri hlutans eru að öðru leyti í samræmi við ummæli og bendingar ýmsra háttv. þm. við 1. umr. málsins hjer í deildinni.

En svo ganga þessar tillögur meiri hlutans lengra heldur en lögin frá 1915 um þetta efni, og heldur en frv. stjórnarinnar, að því leyti, að föstum kennurum við fasta skóla, barnaskóla og aðra alþýðuskóla, er ætluð dýrtíðaruppbót. Gætir þar áhrifa kennaranna í nefndinni. Enda ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að kennurum við almenna skóla verði veitt dýrtíðaruppbót, eins og öðrum opinberum starfsmönnum landsins. Ekki mundi það hafa orðið vinsælla að skylda hreppsfjelögin og bæjarfjelögin með lögum til þess að veita slíka uppbót. Hitt hefir nefndin ekki sjeð sjer fært, að gera greinarmun á mönnum eftir efnum. Hefði það þó vel mátt vera, svo framarlega sem hægt hefði verið að koma því við. En nefndin treysti sjer ekki til að leggja út á þá braut, meðal annars vegna þess, að erfitt mundi hafa orðið að fá ábyggilegar skýrslur um efnahag manna.

Sjálfsagt er að kannast við það, að dýrtíðaruppbót sú, sem meiri hluti leggur til að veitt verði, er lág, miklu lægri en verðfalli peninganna nemur. En hjer er á svo margt að líta, er gerir það að verkum, að meiri hlutinn treysti sjer eigi til að fara hærra en þetta. Efnahagur landsins ekki sem glæsilegastur, og í mörg horn að líta. Ástæður almennings, bæði til sjávar og sveita, erfiðar. Dýrtíðin þröngvar kostum manna á öllum sviðum. Við verðum því að fara varlega í það að veita embættismönnum sjerstaklega mjög háa uppbót, einkum þegar talið er víst, að allur fjöldi þeirra eigi við mun betri kjör að búa að jafnaði en almenningur, sem verður að strita og stríða og sveitast blóði sínu til að hafa ofan af fyrir sjer og sínum. Á þetta verður einnig að líta í þessu sambandi.

Dýrtíðaruppbót embættismanna samkvæmt ályktun aukaþingsins í vetur nam alls rúmum 420 þús. kr. Og nálægt helmingur þessarar uppbótar, eða rúm 200 þús. kr., kom niður á 14. gr. fjárlaganna, og gekk til kirkju- og kenslumála, eða til andlegu stjettarinnar og kennara. Eftir dýrtíðarfrumvarpi stjórnarinnar, sem lagt var fyrir þetta þing, mundi uppbótin nema alt að 300 þús. kr.

Hvað hún verður eftir tillögum meiri hluta bjargráðanefndar veit jeg ekki fyrir víst. En jeg geri ráð fyrir, að hún muni verða mun lægri en stjórnarfrv. tiltekur. Gagnvart landssjóði, eða fjárhag landsins, mundi ekki heldur af veita, þótt svo reyndist. Till. meiri hlutans ber að öðru leyti að skoða sem meðalveg milli þeirra, sem lengst vilja fara — veita hæsta dýrtíðaruppbót — í þessu máli, og hinna, sem litla eða enga dýrtíðaruppbót vilja veita. Hjer er með öðrum orðum um miðlun eða sáttaumleitun að ræða milli hinna andstæðu skoðana í máli þessu. Þetta má heimfæra bæði til okkar, er meiri hlutann skipa, og þingmanna yfir höfuð.

Jafnvel þótt við meiri hluta menn höfum orðið samferða í aðalatriðunum, þá ber þó ýmislegt á milli um ýms minni háttar atriði þessa máls. En út í þá sálma finn jeg ekki ástæðu til að fara. Nefndarmennirnir sjálfir gera grein fyrir því.

Um hinar einstöku brtt. á þgskj. 362 ætla jeg ekki að ræða sjerstaklega. Jeg hefi þegar í fáum dráttum gert grein fyrir þeim.

Um brtt. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), á þgskj. 433 og 449, er það að segja, að þær raska töluvert niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar, og miða yfirleitt að því að auka dýrtíðaruppbótina. Þær ganga sem sje í þá átt að færa upp launatakmarkið, sem uppbót er veitt á, úr 3500 kr. upp í 4500 kr., og prósentutalan jafnframt hækkuð; enn fremur í þá átt að hækka uppbótina til einhleypra manna úr helmingi móts við heimilisfeður upp í tvo fimtu hluta, og að uppbótin til barna nái einnig til foreldra hlutaðeigenda, ef þeir — foreldrarnir — geta ekki unnið fyrir sjer sjálfir. Hjer er því um allmikla hækkun að ræða.

Jeg get nú ekki fullyrt um það, hvort hinir meiri hluta mennirnir geta fallist á þessar brtt. Jeg hygg þó, að jeg megi fullyrða, að þeir sjeu ekki hlyntir þeim, að minsta kosti ekki öllum þeirra. Og um mig og háttv. þm. Borgf. (P. O.) er það að segja, að við erum algerlega mótfallnir þeim og greiðum atkv. á móti þeim.

Læt jeg svo staðar numið, og lýk máli mínu að þessu sinni með þeirri ósk, að brtt. meiri hlutans á þgskj. 362 verði allar samþyktar.

Farist það fyrir að einhverju leyti, er máli þessu komið í óvænt efni, og óvíst mjög, hvernig þá mundi fara um dýrtíðaruppbótina. Það gæti þá svo farið, að þeir, er skemst vilja ganga í þessu efni, snerust þá á móti málinu, og þá mundi, býst jeg við, sumum þykja »ver farið en heima setið«.