17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Það hafa nú þegar verið haldnar 16 ræður í máli þessu síðan umræður hófust í dag. Hefir helmingur þeirra verið með brtt. meiri hlutans að meira eða minna leyti, en helmingur móti, og það hefir þegar verið svarað mörgu í þeim 8 ræðum, sem andstæðingar vorir hafa haldið. Get jeg því sparað mjer margt af því, sem jeg mundi annara hafa sagt, af því að aðrir hafa tekið af mjer ómakið.

Háttv. frsm. minni hl. (B. J.) kvað sig í upphafi ræðu sinnar vera í tveim aðalatriðum á móti brtt meiri hlutans. Í fyrsta lagi að því er snerti eðli fjárveitingarinnar. Við vildum nefna hana hjálp, en hann ekki. Og í öðru lagi þótti honum uppbótin, sem til er tekin í brtt., oflág. Um eðli málsins, eða að tillaga okkar liti út eins og um hjálp sje að ræða, hefir svo margt verið sagt, að það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar miklu við. Þó skal jeg geta þess, að tillaga okkar nú byggist á sama grundvelli sem lögin frá 3. nóv. 1915, um dýrtíðaruppbót. Hefi jeg ekki orðið þess var, að neinn hafi hneykslast á þeirri uppbót, er lögin heimila, miklu heldur hins, að tekið hafi verið þakksamlega á móti hjálp þeirri, sem með lögunum er veitt. Og þótt svo líti út, sem þar sje um hjálp að ræða, þá veit jeg ekki til, að einn einasti maður hafi þóst upp úr því vaxinn að hagnýta sjer þá hjálp. Það þýðir því ekki að vera að þræta um þetta. Það hefir verið sýnt fram á, að hjálp er verið að veita, en að öðru leyti er mjer sama um, hvaða nafn henni er gefið.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) kvað tillögu meiri hlutans vera, að forminu til, móðgun við embættis- og sýslunarmenn landsins. Ekki hefi jeg orðið þess var, að neinn hafi hingað til talið sig svo móðgaðan, að hann hafi ekki tekið á mótt dýrtíðaruppbót þeirri, er honum stóð til boða. En finni einhver sig móðgaðan, þá er ekki vandinn annar fyrir hann en sá, að lítillægja sig ekki með því að taka á móti dýrtíðaruppbót þeirri, sem honum er ákveðin. Enginn mun verða til þess að neyða henni upp á menn.

Okkur kemur saman um hitt atriðið, að uppbótin sje lág. Jeg tók það þegar fram í framsöguræðu minni, að hún væri lág, og jeg vildi óska, að fært hefði verið að fara lengra, en því er ekki að heilsa. Uppbótin er ekki nándar nærri fullnægjandi fyrir alla, og allra síst fyrir þá, sem eru lágt launaðir og nú komast ekki af nema að safna skuldum. En svo er um allan þorra manna, nema þá, er stunda verslun eða einhvern arðsaman atvinnurekstur. Verkamenn mega ekki missa einn einasta dag, ef þeir eiga ekki að safna skuldum. Það er því ekkert einstakt með embættismenn, þótt þeir eigi erfitt með að komast af. Það á nú að vera sameiginlegt fyrir alla að spara, lifa einfaldara lífi en áður hefir átt sjer stað.

Hv. framsm. minni hlutans (B. J.) gat þess, að ekki væri vel viðeigandi að veita að eins embættismönnum hjálp, eins og hann komst að orði, þar sem öðrum stjettum væri ekki veittur styrkur á líkan hátt. Þessu hefir verið svarað áður, og skal jeg ekki fara frekar út í það, að eins bæta því við, að nú er þingið að gera ráðstafanir til að hjálpa öllum. Á það benda frv. þau, sem nú eru á dagskrá, eins og t. d. frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) um að selja mönnum vörur undir verði, frv. um almenna dýrtíðarhjálp og loks frv. um dýrtíðarstyrk, frá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Öll þessi frv. miða að því að hjálpa almenningi. Það má nærri því segja, að sakir dýrtíðarinnar sje allur þorri manna hjálparþurfi, og það er skylda löggjafarvaldsins að sjá þeim borgið á einhvern hátt, sem ekki komast af, svo að eigi hljótist af meiri vandræði.

Háttv. framsm. minni hlutans (B. J.) tók t. d. mann, er semdi við vinnumann eða kaupamann um ákveðið kaup, og sagði, að hann myndi ekki miða kaupið við það, hvort maðurinn hefði ómaga fyrir að sjá eða ekki. Þetta er að vissu leyti rjett, en skýtur þó skökku við því, sem hjer er um að ræða. Það er fyrir löngu búið að semja um þetta vissa kaup — launin — við embættismennina og lengi búið að borga það. En þessi uppbót er ekki kaup í sjálfu sjer, heldur uppbót á laununum sakir dýrtíðarinnar. Og þegar uppbótin er skoðuð í þessu ljósi, er það ekki nema eðlilegt, að tekið sje tillit til ástæðna manna, eins og gert er í till. meiri hlutans. Og svo að jeg víki að dæminu aftur, þá er ekki óhugsandi, að bóndinn bætti vinnumanninum halla, er hann kynni að hafa orðið fyrir, ef sjerstakar ástæður væru fyrir hendi. Dæmið sannar þess vegna ekki það, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi láta það sanna, heldur þvert á móti.

Háttv. framsm. (B. J.) gat þess, að dýrtíðin legði skatt á embættismennina. (B. J.: Sagði ekki, að dýrtíðin gerði það). Nú jæja, þetta yfirstandandi ástand. Það er rjett. En þetta ástand leggur samskonar skatt á alla. Þessum skatti er enginn undanþeginn. En ástæður manna eru mismunandi, og þar af leiðandi þola menn misjafnlega vel þann skatt, sem nú er lagður á þjóðina, sakir ófriðarins mikla.

Þá gat hv. framsm. (B. J.) sjer þess til, að kjósendur landsins yfirleitt myndu ekki kunna því vel, ef dýrtíðaruppbótin væri skorin mjög við neglur sjer, og kunna betur við till. minni hlutans en meiri hlutans. Um það skal jeg engu spá, og læt mjer á sama standa. En benda má honum og öðrum, er halda svipuðu fram, á ýmsar þingmálafundargerðir, er benda á hið gagnstæða.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), ásamt fleiri háttv. og mikilsvirtum þm., svo sem hv. þm. Stranda. (M. P.), gerðu mikið veður út af því, að erfitt mundi að fullnægja sumum ákvæðum í till. meiri hlutans, ef þær yrði samþ. Sjerstaklega fundu þeir tvo snaga að hengja hatta sína á, framleiðendur og einhleypa menn. Um framleiðendur þótti hv. þm. Stranda. (M. P.) miklu ákveðnari viðaukatill. við þingsályktun aukaþingsins í vetur, sem fjell þá að vísu, þar sem svo var ákveðið, að þeir, sem hefðu tekjur af framleiðslu eða atvinnu, er næmu 600 kr., skyldu ekki fá dýrtíðaruppbót. En með besta vilja fæ jeg ekki sjeð, að hægra væri að framfylgja þessu ákvæði en því, sem meiri hlutinn hefir sett. Það mundi kosta miklu meiri skriffinsku. Stjórnin yrði að heimta skýrslu um efnahag manna, og þekkja allir, að menn gefa oft miður ábyggilegar skýrslur, er þeir eiga að telja fram efni sín. Þarf jeg ekki annað en minna á framtalið og skýrslur þær, sem á því eru bygðar. Þá þótti einhverjum ákvæðið í lögunum frá 1915 ákveðnara. Í 4. gr. þeirra laga segir, að enga dýrtíðaruppbót skuli veita þeim, er lifir jafnframt af framleiðslu. Get jeg ekki sjeð mikinn mun á þessu, og yfir höfuð held jeg, að ákvæði eins og í brtt. meiri hlutans sjeu svo augljós, í sjálfu sjer, að stjórninni muni ekki verða nein skotaskuld úr að framfylgja því. Annars ætla jeg stjórn landsins að vera svo kunnuga embættis- og sýslunarmönnum þeim, er undir henni standa, að hún ætti að vita nokkuð gerla, hvernig högum þeirra er háttað. Jeg vorkenni henni það ekki, og tel henni skylt að vita það, svo að ekki sje um að villast.

Þá er enn fráleitara, að hitt atriðið, um einhleypu mennina, geti valdið nokkrum erfiðleikum. Í brtt. vorri er þeim, er ekki hafa dúk eða disk og hafa undir 2000 kr. í laun, ætluð hálfu minni uppbót en hinum, er hafa fyrir heimili að sjá. Þetta sýnist svo skýrt ákvæði, að barnaskapur virðist að hafa á móti því af þeirri ástæðu, að því verði ekki framfylgt. Skal jeg svo ekki svara þessu atriði frekar, því að mjer finnast öll mótmæli gegn því á engum rökum bygð. (B. J.: Getur ekki einhleypur maður haft dúk og disk?) Þá hefir hann heimili; ókvæntur maður getur haft foreldra eða systkin að annast, og þá fær hann auðvitað hærri uppbót, því að þá hefir hann heimili.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hóf ræðu sína með því að tala um, að þegar seinni tíma menn færu að bera saman nál. meiri og minni hlutans í þessu máli, myndi þeim bregða í brún, og vildi hann láta líta svo út, sem þeir myndu líta svörtum augum á nál. meiri hlutans, en björtum augum á hitt, og hefja það til skýjanna. Nú munu þessir menn líka reka sig á þingtíðindin og líta á ræðurnar, og get jeg þá samglaðst háttv. þm. Stranda. (M. P.) með að vera ein af björtustu stjörnunum í augum þessara manna.

Jeg hafði getið þess í framsöguræðu minni, að till. vorar, meiri hlutans, væru miðlun eða meðalvegur milli tveggja andstæðra skoðana. Fór þá háttv. þm. Stranda. (M. P.) að setja mig í samband við það og hjelt því fram, að háttv. meðnefndarmenn mínir hefðu togað mig til sín. Hann getur auðvitað fengið upplýsingar hjá þeim þar að lútandi; jeg læt mjer það á sama standa. Enda kemur það ekki málinu við, hvort jeg hefi viljað fara lengra eða skemra í þessu máli.

Ýmsir háttv. þm. hafa haldið því fram, að vjer vildum níðast á þeim embættismönnum, er hafa framleiðslu, með því að ætla þeim enga dýrtíðaruppbót. Þetta nær engri átt. Meira að segja könnumst vjer við, að vel geti verið, að þeir þurfi dýrtíðaruppbót. En jeg vil segja, að þrátt fyrir erfiðleikana á búskapnum get jeg ekki annað en gert töluverðan mun á embættismanni, er hefir talsvert bú sjer til stuðnings, og hinum, sem lifir við lág laun í kaupstað og býr við þurt hús, sem kallað er. Jeg tel engan vafa á, að hinn fyrnefndi muni komast betur af og lifa sæmilegu lífi.

Hæstv. forsætisráðherra og enda fleiri þm. vonuðu, að þingið væri ekki svo hverflynt, að það færi að breyta skoðunum sínum á þessu máli frá í vetur. Þeir meina, að þm. sjeu frá í vetur bundnir við að greiða atkv. með till. stjórnarinnar eða till. í líka átt. Þessu hefir að vísu verið svarað af háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), en jeg vil bæta því við, að rjett á litið stóð alt öðruvísi á í vetur. Fyrst og fremst má minna á, að 7 af Nd. þm. greiddu atkv. móti till., af því að þeim líkaði hún ekki, en ekki af því, að þeir vildu ekki veita dýrtíðaruppbót. En aðrir greiddu atkv. með henni af sjerstökum ástæðum, þótt þeir væru í insta eðli sínu óánægðir með hana. Þess vegna er ekki um neitt hverflyndi eða stefnubreyting að ræða, þótt menn greiði nú atkvæði með till. meiri hlutans, því að till. meiri hlutans eru miklu fremur í samræmi við skoðanir þeirra í vetur. Er því rangt að »apellera« til atkvæðagreiðslu þeirra í vetur og skora á þá að greiða atkv. öðruvísi en þeir telja rjett vera.

Það hefir verið minst á kennarana í sambandi við þetta mál, og meiri hlutanum lagt út á verra veg, að hann sinti þeim að nokkru. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi helst, að þingið hefði ekkert skift sjer af kennurunum í þetta skifti. En minna má hann og aðra á það, að í vetur voru allir kennarar teknir með, líka farkennarar og stundakennarar. Og grundvöll þeirrar till. kvað hann sannleikann og rjettlætið eitt. Getur það því ekki verið nein goðgá, þótt meiri hlutinn hafi tekið nokkra þeirra með. Sumir finna að því, að stundakennarar og farkennarar sjeu ekki teknir. Um farkennara er það að segja, að þeir hafa flestir kensluna að aukastarfi, og sama er að segja um tímakennara, marga að minsta kosti. Að öðru leyti get jeg vitnað til þess, sem háttv. þm. Barð. (H. K.) sagði um þá. Hvaðan kennarar fái uppbót, legg jeg ekki áherslu á, en tel, að þeir hafi eins kröfu til þess og aðrir embættismenn. (G. Sv.: Hefir nefndin trygt, að þeir fái uppbót?) Hún hefir ekki trygt það frekar en gert er í till. vorum. Nefndin telur það eins skyldu mentamálanefndar að sjá fyrir því. Að minsta kosti var það skylda stjórnarinnar, en hún hefir vanrækt það. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hneykslaðist mjög á ummælum mínum í dag viðvíkjandi embættismönnum, er jeg gerði samanburð á kjörum þeirra og annara. Mjer þykir mjög leiðinlegt, ef jeg hefi hneykslað hann. En það var rjett, sem jeg sagði. Embættismenn eru altaf að því leyti betur settir, að þeir hafa lögákveðin laun og þurfa því ekki að kvíða atvinnubreytingu eða verkamissi, eins og verkamenn, eða misæri af völdum óþurks eða harðinda, eins og bændur og aðrir framleiðendur. Þetta var þess vegna hárrjett. En hins vegar get jeg að öllu leyti tekið undir með háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) um þetta atriði og skal því ekki orðlengja um það.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að vel gæti verið, að einhleypir menn og framleiðendur gætu verið eins illa staddir og hinir, sem full dýrtíðaruppbót er ætluð. Það getur vel verið, að þess sjeu einstök dæmi, en alment sjeð mun því ekki svo háttað. Reglan er hin, að framleiðendur hafa styrk af sinni framleiðslu og eru því betur staddir. Sama er að segja um einhleypa menn, að þeir eru undir flestum kringumstæðum betur við búnir, enda þótt laun þeirra margra sjeu lægri. En þegar einhleypir menn eru ver staddir efnalega en heimilisfeður, er það oft af ástæðum, sem jeg ætla ekki að gera að umtalsefni.

Jeg skal nú ekki tefja tímann á því að tala meira um þetta mál. Að eins vil jeg svara því, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði um, að till. okkar væru illa hugsaðar. Jeg get þá alveg eins tekið munninn fullan og sagt: Okkar till. eru best hugsaðar, rjettlátastar og einfaldast að framkvæma þær, því að þær eru einu till. í þessu máli, sem bygðar, eru á sannleika og rjettlæti.