01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

153. mál, vitagjald

Magnús Torfason:

Jeg er háttv. framsm. (H. St.) þakklátur fyrir hinn langa og ítarlega lestur um þessa 10 eða 5 aura »politik« stjórnarinnar, sem að endingu reynist vera komin niður í eineyringa-»politik«. (H. St.: Jeg mintist ekki á neitt eins eyris gjald). Jú, þm. gat þess, að 10 vitum hefði verið bætt við vitakerfið, og í sambandi við það, að sennilegt væri að hækka vitagjaldið um 10 aura, og trúi jeg það verði l eyrir á vita. Í athugasemdum stjórnarinnar er það tekið fram, að vitagjald sje lægra hjer en annarsstaðar, og er það rjett. Þar er það líka tekið fram, að nauðsynlegt sje að afla landssjóði tekna með gjaldi þessu.

Athugasemd þeirri get jeg verið samþykkur að nokkru en ekki öllu leyti. Jeg lít svo á, að með vitagjaldinu eigi ekki að auka tekjur landssjóðs í öðru skyni en því, að afla fjár til fjölgunar vitunum. En til þeirra framkvæmda veitir sannarlega ekki af, að gjaldið sje hækkað.

Ef athuguð eru útgjöldin til vita í landsreikningnum fyrir árið 1915, þá kemur það í ljós, að vitagjaldið hrekkur ekki nærri til. Vitagjald nemur þá 60,000 kr., en útgjöldin eru talsvert meiri, þótt ekki einu sinni sje tekið tillit til vaxtanna af því fje, sem lagt er í stofnkostnaðinn. Síðan hefir þó kostnaðurinn aukist að miklum mun, bæði vegna dýrtíðaruppbótar starfsmanna og verðhækkunar á olíu, og auk þess er það vitanlegt, að vitagerð er miklu dýrari nú en þá.

Nú er löggjafarvaldið eindregið á þeirri skoðun, að nauðsynlegt sje að hraða vitagerð meir en hingað til hefir gert verið, og virðist því rjett að hækka gjaldið að nokkrum mun; því að ekki nær það nokkurri átt að vera að hringla við að breyta því á hverju þingi. En það er jeg sannfærður um, að þótt gjaldið verði hækkað nú um 10 aura, þá þykir það oflágt eftir 2—3 ár.

Sjerstaklega vil jeg fylgja hækkun þessari fast fram af því, að jeg veit, að hún lendir mest á útlendingum. Yfirleitt eru skipagjöld þau gjöldin, er minst óánægja er með hjá landsmönnum, og eru þau því góður tekjustofn, og innheimta handhæg.

Það var drepið á það hjer um daginn, að mörg skip kæmu hjer að landi, sem ekki nytu vitanna, sjerstaklega á sumrum. Það er vísu rjett, en þess ber að gæta, að mörg þau skip, sem hingað sækja á sumrin, eiga það erindi að ausa af auðsuppsprettum landsins, en þær eru ekki ótæmandi.

Því til sönnunar má benda á það, að nú, síðan stríðið hófst, er margur fjörður fullur af fiski, sem áður var þurrausinn. Þessi sókn útlendinga hingað hefir því verið nokkurskonar ránrækt.

Jeg álít því í fylsta mæli sanngjarnt að hækka vitagjaldið svo, að um muni, og býst jeg við, að vandfundinn sje annar vænlegri tekjustofn en þessi.