01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

153. mál, vitagjald

Eggert Pálsson:

Það er alveg óþarft fyrir háttv. þm. Ak. (M. K.) að kvíða því, að jeg ráðist illilega á hann. Því að, sannast sagt, er mjer þetta ekki neitt sjerstakt áhugamál. Jeg hefi að eins viljað lýsa því fyrir háttv. þingdm., hvorri stefnunni jeg fylgdi í þessu máli. En önnur miðar, sem kunnugt er, að því að fjölga vitunum og greiða fyrir samgöngum til landsins, en hin vill, að alt móki í sama horfinu.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að jeg hefði misskilið orð sín. Jeg get ekki kannast við það. Jeg tók svo eftir, að hann ætlaðist til, að vitagjöldin borguðu rekstrarkostnaðinn. (M. K: Það voru ekki mín orð). En jeg ætlast til, að þau borgi bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað. (M. K.: Á sínum tíma).

En þar eð háttv. þm. (M. K.) virtist vilja mótmæla því, að síminn eða símagjöldin borguðu meira en rekstrarkostnaðinn, þá skal jeg geta þess, að jeg held að sanna megi, að einstakar símlínur hafi borgað bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað á einu ári. Þess vegna er dæmi mitt ekki svo fjarri sanni. Annars finst mjer það vera aðalatriðið í þessu máli, að hækkun vitagjaldsins miðar að því að koma vitamálunum í betra horf. Þess vegna fylgi jeg brtt. á þgskj. 748.

En þar sem háttv. þm. (M. K.) mintist á Flóaáveituna og fyrirhleðsluna fyrir Þverá, þá hygg jeg, að jeg gæti mint hann á það, að hann hefir sjálfur barist fyrir kvennaskóla á Akureyri. Jeg vil fá fyrirhleðslu fyrir Þverá; hann vill fá kvennaskóla á Akureyri. Þar er líkt á komið fyrir báðum. En fje þarf til hvorstveggja. Og hvaðan á að taka það fje, ef ekki má auka gjöldin til landssjóðs?

En háttv. þm. (M. K.) ætti að athuga það, að því meira sem gert væri fyrir Suðurlandsundirlendið, því fljótara mætti fá stofnkostnaðinn upp borinn. Ef þetta frjósama hjerað kæmist í fjörugt samband við umheiminn, mundi ekki líða á löngu, að þessi fyrirtæki borguðu bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað.