27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg heyrði ekki gerla til háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), en mjer heyrðist hann telja brtt. nefndarinnar gagnslausa og meinlausa.

Mjer þætti ilt, ef margir af háttv. deildarmönnum ljetu leiðast af þessari kenningu. Skoðun mín og annara samnefndarmanna er einmitt sú, að till. muni koma að miklu liði og ákvæðið verða vinsælt meðal sjómanna. Sjálfur hefi jeg fyrir augum eftirtektarverð dæmi um slys, sem leiddu af því, að samskonar ákvæði vantaði í hin eldri tryggingarlög sjómanna. Úr veiðistöð í mínum átthögum man jeg tvo skipskaða, þar sem svo stóð á, að einn skipverja sat í landi af hvoru skipi, vegna lasleika, en ótrygðir menn reru í þeirrastað og týndust, — týndust óbættir, og eftir sátu einmana, fátækar ekkjur með barnahóp í ómegð.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort líklegt sje, að tryggingarsjóðurinn skaðist á þessum forfallatryggingum eða ekki. En mjer finst það ekki vera neitt aðalatriði. Hitt er aðalatriðið, að mennirnir fari ekki ótrygðir í sjóinn. Og jeg verð að telja það mjög ólíklegt, að sjóðurinn bíði nokkurt tjón af þessu, þegar til lengdar lætur. Það fer svo sem að líkum, að þeir mörgu forfallatrygðu, sem engu slysi mæta, bæta þá einstöku, sem týnast. En til styrktar þessu áliti mínu skal jeg benda á það, að hr. Georg Ólafsson, sem átt hefir mikinn þátt í undirbúningi frv., er mjer sammála um haldkvæmi þessa viðauka.

Að lokum skal jeg geta þess, að þessi breyting hefir verið borin undir sjávarútvegsnefnd háttv. Ed., og mun hún ekki leggja hálmstrá í veginn fyrir frv., hennar vegna.