05.07.1917
Efri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

21. mál, framkvæmd eignarnáms

Forsætisráðherra (J. M.):

Frv. þetta er ef til vill ekki mjög mikilsvert. Hefir það þó ýms atriði að geyma, sem skift geta talsverðu máli. Ráðuneytið hefir sjeð, að ákvæðin um framkvæmd eignarnáms eru ónákvæm hjá háttv. Alþingi. Hefir það, meira að segja, gengið svo langt, að sama þing hefir gefið út tvenn lög um eignarnám, sem hafa haft inni að halda ólíkar ákvarðanir. Nú getur ekki hjá því farið, eftir því sem framfarir vaxa, að oft verði viðhaft eignarnám, og mundi þá vera einkar hentugt að hafa til lög um það, hvernig framkvæma skuli. Aftur á móti geta einstök lög ekki haft annað til meðferðar en hvað taka skuli eignarnámi.

Hvort ákvæði þau, sem í frv. standa, sjeu hentug eða ekki, vil jeg ekki fullyrða; en aðalatriðið er það að fá almenn lög, er skipi fyrir um framkvæmdir eignarsnámsins.