30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Árnason:

Það mun vera venja að fylgja brtt. sínum úr garði með nokkrum orðum, og vil jeg ekki bregða út af þeirri venju, heldur minnast lítið eitt á brtt. á þgskj. 691, frá okkur þm. Eyf.

Hjer á í hlut maður, sem ráðist hefir af eigin ramleik til náms, ef hann mætti á þann veg verða landi sínu til meira gagns en ella. Hann er efnalaus, en hefir með mesta dugnaði klofið nám í 5 ár, fyrst þrjú hjer heima og síðan tvö í Noregi; hefir hann nú lokið þar prófi í rafmagnsverkfræði með góðum vitnisburði, og góð meðmæli þaðan fylgja umsókn hans. Býst hann við að þurfa enn að halda áfram námi tvö ár, og er í því skyni kominn á leið til Ameríku, til að kynna sjer rafmagnsverkfræði Ameríkumanna, sem að allra dómi eru komnir manna lengst í þeirri grein. Það er til þessarar Ameríkuferðar, sem hann skortir tilfinnanlega fje, og neiti þingið honum um þessa litlu upphæð, sem hjer er farið fram á, verður hann að hætta við skólanám. Fyrir mínum augum er það nauðsynlegt fyrir oss að fá sem flesta menn með góðri, verklegri þekkingu, því að þar erum vjer víst skemst á veg komnir. Jeg býst nú samt við, að till. þessi fari veg allrar veraldar, eftir undirtektum háttv. fjárveitinganefndar að dæma, enda er jeg hjer engrar ölmusu að beiðast, en vil, að háttv. deild sýni með atkvæði sínu, hvort hún telji oss þörf á mönnum með verklegri þekkingu, og hvort hún vilji láta mann þennan hætta að hálfnuðu námi.

En fyrst að jeg á annað borð stóð upp, þá vil jeg lýsa afstöðu minni til ýmsra útgjaldaliða. Jeg álít, að nú sjeu sjerstakir tímar hvað fjárveitingar snertir. Við 2. umr. fjárlaganna greiddi jeg atkvæði móti mörgum þeim liðum, sem fóru fram úr því, sem í stjórnarfrv. stóð, eða bættu nýju við; yfir höfuð greiddi jeg atkvæði gegn því, sem mjer fanst að á nokkurn hátt gæti beðið til seinni tíma. Með því er ekki sagt, að jeg sje í sjálfu sjer mótfallinn sumu af þessu þegar það er tímabært og þjóðarbúið þolir þau útgjöld, sem af því leiða.

Jeg býst við, að jeg muni nú greiða atkvæði móti ýmsum till.háttv. fjárveitinganefndar, t. d. 11., 12. og 13. lið á þgskj. 722. Ekki var svo að skilja, að jeg telji það ekki geta verið gott og gagnleg ef það er tekið á sínum rjetta tíma. En nú, þegar vjer stöndunn andspænis vandræðum á flesta vegu, þá verður að fara varlega í útgjöldin, og þótt jeg búist ekki við, að komist verði hjá því að taka lán, þá ætti þó að takmarka sem mest það lánið, sem yrði beinn eyðslueyrir. Jeg hefi í sjálfu sjer ekki á móti skynsamlegum lántökum til arðvænlegra fyrirtækja, en aðrar lántökur skyldi jafnan takmarka sem mest. Jeg hefi þó greitt atkvæði með þeim liðum, sem til hækkunar horfðu, og mun enn gera, ef þeir liðir miða að því, að veita þjóðinni atvinnu, og jeg mundi hafa getað veitt háttv. fjárveitinganefnd fylgi, jafnvel þótt hún hefði farið enn hærra í till. sínum um þá liði, sjerstaklega þótt hún hefði ætlað enn meira fje til þjóðvega og akfærra sýsluvega.

Ef atvinnuleysi dynur yfir, eins og við má búast, er sjálfsagt heppilegt að fá mönnum atvinnu við vegagerð, og í. frv. því um dýtíðarhjálp, sem nýlega var afgreitt hjer úr deild, var sveitavöldum fengið töluvert vald til þess að ráða fram úr vandræðunum, eftir því sem best hentaði á hverjum stað; geri jeg ráð fyrir að sýslunefndir muni á ýmsum stöðum snúa sjer að sýsluvegagerð. Fjárveitingar í þessa átt úr landsjóði gætu því komið að miklu liði, og þær vil jeg styðja, en fara varlega í þær fjárveitingar, sem ekki er knýjandi nauðsyn til.