21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir, eins og röskri eldabusku sæmir, gengið hvatlega um í eldhúsi stjórnarinnar um stund. Hann benti á 9 ávirðingar hjá stjórninni, sem allar skifta þó fremur litlu máli; gæti því virst nóg komið af því tægi. En jeg get samt varla stilt mig um að koma með þá tíundu. Jeg held, að sú ávirðing stafi annaðhvort af gleymsku eða misskilningi. Á þinginu í vetur kom fram tillaga til þingsályktunar um það að farmgjald skyldi ekki reiknað sjerstaklega á þeim vörum, sem fluttar væru til hafna úti um landið, heldur skyldi flutningskostnaðurinn lagður á vöruna í heild sinni. Þessi tillaga var tekin aftur, þegar fram kom frumvarp til laga um ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum. 2. gr. þessara laga gerir ráð fyrir, að vörur landssjóðs sjeu fluttar ókeypis á hafnir umhverfis land. Eftir þessari ráðstöfun hefir stjórnin ekki breytt nema að eins stutta stund, og það voru ekki nema fáein hjeruð, sem urðu fyrir því að fá vöru sína flutningsgjaldslaust. Nú fer því svo fjarri, að stjórnin fari eftir þessu ákvæði, að nú verða menn t. d. að borga 20 kr. fyrir flutning á einni steinolíutunnu hjeðan austur á land og norður. Þetta hefir valdið megnustu gremju úti um land, enda er þetta óheyrilegt gjald fyrir jafnverðlítinn hlut og eitt steinolíufat er. Jeg segi ekki, að þetta sje ofhátt, ef borið er saman við leiguna á »Botníu«, og hún á að sigla landssjóði skaðlaust. En þetta er feiknaskattur, þegar hann er borinn saman við það, hvað ein olíutunna kostar og kjörin fyrir þá, sem næst búa Reykjavík. Og þegar þessi skattur bætist ofan á ýms önnur ókjör, sem útgerðarmenn verða að þola, þá getur hann nægt til þess að ríða sumum þeirra að fullu. Þessa yfirsjón hæstv. stjórnar hlaut jeg að minnast á, fyrst að eldabuskan, hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), slepti henni. Þetta atriði er ekki minna virði en sumt af því, sem hann tíndi til, og jeg verð að játa, að var ekki allþungt á metunum. Hæstv. forsætisráðherra hefir nú svarað því flestu. Get jeg ekki annað sagt en að mjer virðist nú fremur sókn en vörn af hans hendi og álít, að honum hafi tekist vel. Ekki svo að skilja, að jeg vilji halda því fram, að stjórninni hafi ekki orðið á í neinu. Þá væri til ofmikils ætlast. En jeg held að minsta kosti, að þetta tíunda atriði, sem jeg drap á, sje ein af stærri yfirsjónum hæstv. landsstjórnar.