30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Þorsteinn Jónsson:

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir ráðist á mig með ónotum svo miklum, að jeg sje mjer ekki annað fært en að gera stutta aths. við ræðu hans, þótt jeg annars láti mig það litlu skifta, sem sá maður segir. Ræða hans gekk aðallega út á það, að jeg hefði talað ofhátt. Það býst jeg ekki við að þingheimur lasti, þótt jeg tali hærra en þm. Stranda. (M. P.). Annars fann jeg ekki, að hann kæmi með neinar nýjar röksemdir í málinu, sem deilt er um. En honum fer þannig, að hann notar skæting í stað röksemda. Það var eitt atriði úr hinni þingmannlegu ræðu háttv. þm. Stranda.

(M. P.), sem jeg verð að drepa á. Hann sagði sem sje, að jeg hefði gengið á milli manna, til þess að biðja þá um atkvæði. Jeg býst við, að það verði erfitt fyrir hann að sanna þetta. Jeg get ímyndað mjer, að þessi andi, sem kom fram í ræðu hans, komi ekki út af þessari brú, heldur öðru. Það var sem sje snemma á þinginu í sumar, að hann vildi komast í kosningasamband við Framsóknarflokkinn, og á móti því var ekki haft fyrst í stað, en þá gerði hann það að skilyrði, að hann yrði kosinn í fjárveitinganefnd, en það vildi flokkurinn ekki, og átti jeg góðan þátt í því. En þá fór hv. þm. (M. P.) til annars flokks hjer í þinginu, en þar var honum neitað, og þá fór hann til þriðja flokksins, og um fleiri flokka var ekki að gera, og þar tókst honum loks að komast í kosningasamband og í fjárveitinganefnd. Hann hefir að vonum sótt það eins fast að verða framsm. eins og að komast í nefndina, hvort sem hann hefir ætlað að nota þá stöðu til að hafa óvirðuleg orð um einstaka þm. eða ekki. Þessi ræða hans átti víst að vera hefnd fyrir það, að jeg vildi ekki stuðla til þess, að hann kæmist í fjárveitinganefnd.

Fleiru ætla jeg ekki að svara honum, því að jeg vildi tala um málið sjálft, en beindist ekki að honum persónulega, þótt jeg segði, að leið hans myndi liggja oftar um Húnavatnssýslu en Austfirði.