01.08.1917
Efri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

55. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Jóhannes Jóhannesson:

Frv. þetta fer fram á smábreytingu á núgildandi símalögum. Í þeim er ákveðið, að síminn frá Egilsstöðum á Völlum til Borgarfjarðar, sem leggja á árið 1919, eftir fjárlagafrumvarpinu fyrir næstu fjárhagstímabil, skuli liggja um Sandaskörð til Borgarfjarðar, en hjer er farið fram á, að hann verði lagður um Unaós til Borgarfjarðar. Við það vinst það, að síminn liggur yfir miklu skemri og snjóminni fjallveg en ella, og viðhaldið verður því ódýrara, og að síminn liggur þá miklu meira í bygð og kemur því að meiri notum.

Á Unaósi hefir verið rekin föst verslun, en verslunarhúsið, er brann fyrir nokkrum árum, hefir ekki verið reist aftur. Hins vegar eru þangað enn fluttar vörur á sjó til Úthjeraðsmanna, því að þar er eini hugsanlegi lendingarstaður fyrir austan Jökulsá. En með því að þar er mjög brimsamt, er mjög nauðsynlegt, að þangað komi sími, svo að fá megi vitneskju um það, hversu horfi til með lendingu þar, áður en lagt er af stað með vörurnar, því að oft hefir orðið aftur að snúa, til mikils kostnaðar fyrir Hjeraðsbúa.

Kostnaðarauki við breytinguna er ekki teljandi, ef nokkur verður, og breytingin hefir verið borin undir landssímastjóra, er hefir tjáð sig henni meðmæltan. Samgöngumálanefnd þessarar háttv. deildar hefir og fjallað um málið á sameiginlegum fundum með samgöngumálanefnd háttv. Nd. og er því hlynt, að frv. nái fram að ganga. En þar sem tvær aðrar breytingar á sömu lögunum eru á prjónunum, sem samgöngumálanefndirnar geta fallist á, skal jeg leyfa mjer að stinga upp á því, að frv. þessu verði, að lokinni þessari umr., vísað til samgöngumálanefndar, til þess að hún geti prónað við það breytingar þær, er jeg nefndi, því að óviðurkvæmilegt er, að sama þingið samþykki fleiri en ein lög um breytingar á sömu lögunum.