10.07.1918
Neðri deild: 67. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg sje enga ástæðu til, að halda nú uppi löngum umr. um þetta mál, en að eins vil jeg leyfa mjer að gera stutta grein fyrir þeim brtt., er jeg hefi leyft mjer að flytja, og stjórnin öll er sammála um.

1. brtt. fer í þá átt, að gera það með öllu ljóst, að sveitarfjelögin megi verja meiru en þeirri upphæð, 15 kr, sem tekin er til í 1. gr., að sveitarfjelögin megi verja til dýrtíðarhjálpar af eigin ramleik, ef sveitarfjelögin fá til þess leyfi sýslunefnda. Það var alt af meining stjórnarinnar, að hún vildi ekki á neinn hátt takmarka það fje, er sveitirnar veittu til dýrtíðarhjálpar, en af því að sumir virðast hafa misskilið þetta, eins og það er orðað í greininni, þá er nú sagt með brtt., að þessar 15 kr. megi veita án samþykkis sýslunefndar, sem sýnir, að með samþykki sýslunefndar má verja meiru.

Hin önnur brtt. gengur út á að taka það fastlega fram, að úr landssjóði skuli ekki veita neitt fje fyr en sveitarfjelögin eru búin að leggja fram þær 10 kr., sem gert er ráð fyrir sem skilyrði fyrir styrknum úr landssjóði. Jafnframt er líka þrengdur vegurinn að þessum landssjóðsstyrk, því að það er sett sem skilyrði fyrir því, að styrkurinn úr landssjóði verði heimtaður, að þessum 10 kr. hafi verið jafnað niður á sveitarfjelagið.

Svo er loka 3. brtt. við 5. gr., sem heimilar, ef ástandið í einhverjum slíkum hreppi er svo vont, að ekki sje hægt að ná inn með niðurjöfnun upphæð þeirri, er sveitin þarf að leggja fram, samkvæmt þessum lögum, þá megi undir þessum alveg sjerstöku ástæðum veita hreppnum lán úr landssjóði, og heimilast landsstjórninni að veita sveitarstjórninni þessi lán, en þó þannig, að þau fari ekki yfir 100 þús. kr., og skulu þau veitt með venjulegum bankakjörum.

Í háttv. Ed. var bætt því ákvæði inn í stjórnarfrv., að auk styrksins var gefin heimild til að lána undir vissum kringumstæðum. Þessi lánsheimild þótti stjórninni of stór, en til samkomulags var gengið inn á, að lána megi 100.000 kr. alls. Og vil jeg geta þess, að ef brtt. þessi verður samþ, sem jeg vona, mun mega telja víst, að háttv. Ed muni ganga að frv. í þeirri mynd.

Sje jeg svo ekki ástæðu til frekari orða um málið, en að eins vil jeg mæla með því, að brtt. stjórnarinnar verði samþyktar.