31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla að eins, í tilefni af orðum háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), að skýra frá því, hvað fyrir fjárhagsnefndinni vakti.

Þegar þau ákvæði voru sett í sparisjóðareglugerðina, að greiðslur í og úr sjóðunum skyldu færðar í margar bækur, var ástæðan sú, að gengið er út frá því sem aðalreglu, að 2—3 menn sjeu við flestallar afgreiðslur sjóðanna, og tryggingin hugsuð í því, að líkur fyrir rjettri bókfærslu sje því meiri sem fleiri eru við afgreiðslu og því fleiri bækur sem eru haldnar. Í sveitum er þessu nú þannig háttað, að mjög erfitt er að hafa jafnan 2—3 menn við afgreiðslu sjóðanna, og þegar að eins 1 maður afgreiðir, er tilgangslítið að láta hann færa inn í margar bækur, því að í því er engin veruleg trygging.

Þetta er ástæðan til þess að nefndin vill láta sveitasparisjóði hafa sjerstöðu.

Þá hefir það verið tekið fram, að þeir sjóðir, sem eigi hafi meira fje en 100.000 kr. til ávöxtunar, gætu ekki greitt neitt í starfslaun. Þetta er þó varla rjett á litið, því að sjóður, er ávaxtaði 100.000 kr. gæti lánað helminginn af þeirri upphæð fyrir 5 af hundraði, en hinn helminginn fyrir 6 af hundraði í vexti Ætti sjóðurinn þá að hafa um 1.500 kr. í hreinan arð, og gæti hann þá greitt að minsta kosti helminginn af þeirri upphæð í starfslaun og kostnað, og samt lagt nokkuð í varasjóð.

Það er ekki rjett, að sparisjóðir sjeu eftirlitslausir. Þeir hafa allir endurskoðendur, og er vanrækslu þeirra um að kenna, sje bókfærslan ekki í lagi. Það, sem háttv. þm. S. Þ. (P. J) sagði um þetta, er alveg rangt.

Í raun og veru er það ekki annað en breyting á reglugerðinni, þegar stjórnarráðið veitir slíka undanþágu, sem hjer ræðir um. Að því leyti má segja, að till. þessi sje óþörf, því að stjórnarráðið getur alveg eins vel breytt reglugerðinni eins og veitt undanþágu frá henni. En tilætlunin var sú að sýna, að gera ætti greinarmun á því, hvort líkur væru til þess, að sparisjóðirnir ættu hægt með að hafa 2 menn við bókfærslu, því að aðaltryggingin liggur í því, að sama upphæðin sje bókfærð af tveim.