23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

60. mál, áhöld fyrir röntgenstofnun

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg skal reyna að vera stuttorður um þessa till., sem fjárveitinganefnd leyfir sjer að bera fram. Svo er mál með vexti, að er fje var upphaflega veitt til Röntgenstofnunarinnar, var það svo af skornum skamti, að ekki var nærri því, að hægt væri að kaupa öll þau áhöld, sem stofnunin nauðsynlega þurfti að hafa. Svo er önnur ástæða, sem mikið vegur, og hún er sú, að síðan þessi stofnun var sett á laggirnar hefir þessi lækningaaðferð tekið stórfeldum framförum, og nú er svo komið, að með geislunum eru læknaðir þeir sjúkdómar, sem áður voru álitnir ólæknandi nema með uppskurði. Það þýðir ekki að fara að telja upp þau áhöld, sem mest þörf er á, en þó er það sjerstaklega eitt verkfæri, sem kostar 4.500 kr., sem mjög er áriðandi að stofnunin eignist. Þetta áhald er sjerstaklega notað til þess að lækna með. Hingað til hefir stofnunin verið sjerstaklega notuð til þess að athuga og rannsaka ýmsa sjúkdóma, en minna verið notuð til þess að lækna. Ef þetta verkfæri fengist, væri líka hægt að nota stofnunina til þess að lækna vissa sjúkdóma. Með þessu nýja verkfæri ganga ýmsar lækningar, sem annars hafa tekið langan tíma, miklu fljótara fyrir sig, og væri það ekki lítill kostur, því að það er oft bagalegt fyrir sjúklinga, sem koma utan af landi, hversu langan tíma þeir þurfa að dvelja hjer í bænum áður en þeir fá bót meina sinna.

Þá er það og annar kostur við þetta nýja áhald, að það getur hjálpað, ef eitthvað bilaði hjer í aðalvjelinni, sem nú er, en eins og nú er ástatt, má ekkert fara þar aflaga, því að þá getur stofnunin ekki starfað, því að ekki eru til varaverkfæri.

Þetta er svo mikið nauðsynjamál, að jeg skil ekki annað en að háttv. þm. hljóti að greiða því atkv. sitt, þó að jeg fari ekki frekari orðum um till.