15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg hygg, þótt nál. sje eins stutt og það frekast getur verið, að þá þurfi þó ekki mörgum orðum að eyða að till. þessari.

Í háttv. Nd. var lögð fram allítarleg greinargerð með till. á þgskj. 180, og vona jeg, að háttv. þingdm. hafi kynt sjer hana.

En af henni er það ljóst, að fyrirtæki þetta, rafmagnsveitan á Bíldudal, er komin í þær kröggur, að ekki er sýnilegt, að fram úr þeim verði ráðið án fjárstyrks frá Alþingi.

Í fyrstu var í Nd. farið fram á 35 þús. kr. lán, og var sú upphæð miðuð við það, sem talið er nauðsynlegt til þess að koma fyrirtækinu í kring. Því að eftir nýrri áætlun kostar það 110 þús. kr., en þar af er þegar búið að taka 75 þús. kr. lán í Landsbankanum, svo að enn vantar þannig 35 þús. til þess, að nægilegt fje sje til, til þess að fullgera verkið.

Eins og nú standa sakir, er fyrirtækið í voða og enginn möguleiki til þess, að því verði lokið, svo að það gefi af sjer vexti og verði til þrifnaðar og þarfa, nema fje fáist til þess að fullgera það.

Og sje gengið frá þessum 75 þús. kr., sem búið er að eyða til fyrirtækisins, og þær látnar liggja þar óarðberandi, er ekki unt að sjá, að hreppurinn og sýslufjelagið geti nokkru sinni endurgoldið lánið, og verður þá Landsbankinn fyrir stórtjóni.

Og þótt segja megi að það komi ekki landssjóði við, þá er þó náið nef augum, þar sem Landsbankinn á í hlut.

Það virðist því full nauðsyn á að verða við beiðni þessari og lána fjeð.

Upphæðin, sem till. fer fram á, er 25 þús. kr. Hefir háttv. fjárveitinganefnd Nd. komist að þeirri niðurstöðu, að það muni nægja til þess, að fyrirtækið strandi ekki, með því að hreppurinn muni með einhverju móti geta aflað þeirra 10 þús. kr., sem á vantar.

Fjárveitinganefndin hjer hefir ekki fundið ástæðu til þess að breyta þessu og leggur því til, að till. á þgskj. 283 verði samþ. óbreytt.

Hjer er ekki um nema tvent að velja, annaðhvort að synja lánsins og stofna hreppsfjelaginu og enda sýslufjelaginu öllu í voða á aðra hlið og á hina hlið baka Landsbankanum stórtjón, eða verða við beiðninni með því að samþ. till., og vona jeg, að háttv. þingdm. taka síðari kostinn.