05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

84. mál, rannsókn símleiða

Flm. (Hákon Kristófersson):

Eins og kunnugt er, hefir í mörg ár staðið til, að færi fram rannsókn á símleiðum í Austur-Barðastrandarsýslu og í suðurhluta Vestur-Barðastrandarsýslu. Þessi rannsókn hefir farist fyrir þangað til í fyrra. Þá framkvæmdi símastjórinn hana að nokkru leyti á för sinni um suðurhluta vestursýslunnar og vesturhluta austursýslunnar. Meðal þeirra hreppa, sem út undan urðu við þessa rannsókn, er Rauðasandshreppur. Jeg átti tal við símastjórann áður en hann fór í þessa ferð í fyrra, og benti jeg honum á, að sjálfsagt væri að rannsaka það, hvort hinn fyrirhugaði sími ætti ekki að liggja út Barðaströndina og yfir Sandsheiði á Rauðasand og þaðan til Patreksfjarðar. Þessu lofaði símastjóri, en af einhverjum ástæðum hefir það farist fyrir, að hann færi þangað. Eins og gefur að skilja, eru Rauðsendingar óánægðir með að svona fór. Í vetur var samþykt á fjölmennum fundi í hreppnum að skora á sýslunefnd að senda áskorun til stjórnarinnar um að skifta sjer eitthvað af þessu máli. Á sýslufundi var svo samþykt áskorun til stjórnarinnar um að ýta undir framkvæmd þessarar rannsóknar. Hygg jeg, að þessi áskorun sje komin til stjórnarráðsins. Auk þessa hafa nú vel flestir hreppsbúar í Rauðasandshreppi sent áskorun til þingsins um sama efni, að það hlutist til um, að rannsóknin fari fram. Eftir að þessi áskorun kom var símastjórinn ekki hjer í Reykjavík um lengri tíma. Hann var, að jeg hygg, að rannsaka bilun á símanum til Vestmannaeyja. Jeg gat því ekki átt tal við hann fyr en nú fyrir skömmu. Beindi jeg því þá til hans, hvort hann gæti ekki látið rannsaka þetta í sumar. Hann sagðist eiga ferð fyrir höndum vestur á Ísafjörð, að mig minnir, og mundi þá liggja vel við að rannsaka þetta um leið. Í rannsóknina þurfa ekki að fara nema 2 dagar — það er að segja frá Patreksfirði. — Að vísu hefi jeg ekki vel vit á, hve langan tíma þarf til slíkra rannsókna, en eftir því, sem jeg þekki til staðhátta þarna í hreppnum, þá býst jeg við, að vel sje hægt að fara um svæðið á tveimur til þremur dögum.

Mjer mun óhætt að fullyrða, að í fáum hreppum á landinu standi eins sjerstaklega á og hjer. Eins og kunnugt er, liggur hreppurinn í Patreksfjarðarlæknishjeraði. Milli læknisins og því sem næst allra hreppsbúa liggur Patreksfjörður, og um endilangan hreppinn liggur erfiður fjallgarður, svo að mikill þorri hreppsbúanna eiga yfir fjall og fjörð að sækja til læknis, eða þeir verða að fara inn fyrir Patreksfjörð, sem er alllangur vegur. Á þessu svæði eru engir mótorar, en þar á móti einatt á Patreksfirði. Þurfi því menn utan úr Víkum að fá lækni á Patreksfirði, þyrfti ekki annað, ef sími væri, en gera honum aðvart, og mundi hann þá í flestum tilfellum vera kominn til sjúklingsins, ef hægt væri að koma mótor við, áður en sendimaður, er á landi færi, væri kominn áleiðis til heimilis læknisins. En ef sími lægi frá Vatneyri eða Geirseyri um Víkurnar og Rauðasandinn, þá væri hægt að síma til læknisins, þegar hans væri þörf, og hann gæti farið af stað án þess að senda þyrfti eftir honum þennan langa veg.

Svo er mönnum einnig kunnugt, að kolanáma er í Stálfjalli. Skal jeg engu um það spá, hve lengi hún kann að endast, en allar líkur eru til, að hún verði starfrækt fyrst um sinn. Geta menn þá ímyndað sjer, hvort ekki væri gott, að sími lægi þangað, eða eitthvað í námunda við námuna. í hreppnum er líka kaupfjelag, sem hefir mjög mikið viðskiftamagn, um 120 þús. kr. síðastliðið ár, og þeir vita það best, sem með viðskifti fara, hve mikilvægt það er að vera útilokaður frá símasambandi við umheiminn. Einnig er í hreppnum sveitaverslun, en um hana gildir það sama og um kaupfjelagið. Á þessu svæði eru skipströnd mjög tíð. Á síðustu árum hafa strandað þar 4 botnvörpungar. Er það óneitanlega mikilsvirði fyrir skipbrotsmenn að geta fljótt komið fregnum um ófarirnar til vina og vandamanna. Gæti líka oft leitt til þess, að hægt væri að bjarga skipum, er annars færu í strand, og væri hægt að benda á dæmi, er fyrir hafa komið nú á seinni árum, er sanna þetta.

Viti er á Bjargtöngum. Segjum nú, að sloknaði á vitanum og ekki væri hægt við að gera. Hvers virði væri það þá ekki fyrir sjófarendur að fá að vita þetta strax. Setjum svo, að skip sje að leggja af stað hjeðan að sunnan á vetrardegi. Væri þá ekki mikils virði fyrir skipverja, að fá að vita áður en skipið færi af stað, að vitinn á Bjargtöngum hefði sloknað. Einnig má benda á það viðvíkjandi sjóferðum, að mjög gott væri fyrir báta og skip, sem leið eiga yfir Látraröst, að fá að vita, hvernig þessi alkunni farartálmi er yfirferðar. Það hefir oft komið fyrir, að minni vitund, að mótorbátar, sem leið hafa átt fyrir Bjargtanga, hafa ekki komist lengra en að röstinni og orðið að snúa þar aftur.

Þarna í Víkunum, Kollsvík, Breiðavík og á Látrum, eru veiðistöðvar með þeim bestu á landinu. Þar er mest aflað af þeirri vörutegund, sem nú er mikið eftir spurt víða um land, sem sje steinbít. Það liggur í augum uppi, að miklu hægra er að komast í samband við þessar veiðistöðvar, ef símasamband er þangað, heldur en ef það er ekki. — An þess að jeg álíti, að það komi málinu beinlínis við, skal jeg geta þess, að menn í þessum veiðistöðvum seldu nýlega fisk sinn frá í fyrra fyrir 48—50 aura kg. Ef sími hefði legið þangað út eftir, hefði verið hægt að spyrjast fyrir um það, hvort þetta verð væri í nokkru hlutfalli við verð annarsstaðar. Nú geta menn ef til vill sagt, að það hafi verið athugaleysi af mönnunum að senda ekki inn til Patreksfjarðar til að grenslast eftir þessu. En það er ekki hlaupið að því að komast þangað, ef fara þarf landleiðina. En sjóleiðina er ekki hægt að fara nema í kjörviðri á vetrardegi.

Þessi hreppur hefir allra mest af bjargræðisvegum allra hreppa í sýslunni, og eftir því, sem jeg hefi kynt mjer víðs vegar um landið, veit jeg ekki, að margir hreppar standi honum framar í því efni. Og óhætt mun að fullyrða það, að efnalegt sjálfstæði hefir vaxið í þessum hreppi á síðastliðnum 30 árum, frekar en í flestum öðrum. Þarna er fuglabjarg og fuglatekja mikil. Má það einstakt heita, að á þessum vandræðatímum dettur engum í hug að halda fólki að því að stunda þá atvinnu, til að halda lífinu í sjer og sínum. Hjer er ekki verið að fara fram á, að síminn verði lagður nú þegar, heldur að eins að rannsaka símleiðina. Jeg vona því, að háttv. deild samþ. till. á þgskj. 280, og stuðli með því að því, að málið fái fram að ganga. Þess ber að gæta, að þessi rannsókn hefir engan verulegan kostnað í för með sjer.

Hjer í deildinni eru menn, sem eru svo kunnugir í þessu bygðarlagi, að þeir geta borið um það, að jeg hefi farið hjer með rjett mál. Nefni jeg til þess fyrst og fremst sessunaut minn, háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Sökum kunnugleika síns getur hann borið um það, að í þessum hreppi eru lífsskilyrðin einhver hin bestu hjer á landi. Ef menn geta orðið sammála um það, þá munu þeir einnig geta verið með því, að þessi rannsókn fái fram að ganga, og að síminn verði lagður um þennan hrepp samtímis og í austursýslunni, sem ráðgert er að verði þegar eftir stríðið, þegar hægt verður að afla nauðsynlegs efnis og áhalda til þess. Að svo mæltu ætla jeg ekki að fara fleiri orðum um málið, nema tilefni verði gefið til andsvara.

Jeg heyri ekki, hvað háttv. 2. þm. Arn. (E. A.) er að tauta, en mjer heyrist þó, að það muni vera svo vingjarnlegt, að jeg megi vera honum þakklátur fyrir.