02.07.1918
Efri deild: 55. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

101. mál, raflýsing á Laugarnesspítala

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það væri ef til vill þörf að fara nokkrum orðum um þessa till., þar sem hjer er um allháa fjárupphæð að ræða.

Málaleitanir þessar byggjast á brjefi frá spítalalækninum til stjórnarráðsins, dags. 4. apríl 1918, og hygg jeg, að skýringar málsins komi best fram með því að lesa brjefið, og vil jeg því með leyfi hæstv. forseta gera það. Það hljóðar svo:

„Jeg leyfi mjer virðingarfylst að mælast til þess við hið háa stjórnarráð, að reynt verði að útvega aukafjárveitingu hjá Alþingi 1918 til rafljósastöðvar á Laugarnesspítalanum á næsta sumri, alls, samkvæmt hjálagðri áætlun þeirra rafmagnsfræðinganna Halldórs Guðmundssonar og E. Jensen, að upphæð kr. 23.165,00.

Það hefir verið tilfinnanlegt mjög frá stofnun spítalans, hve óhentugt hefir verið á slíkri stofnun að verða að notast við steinolíulampa, vegna óþrifa, loftspillis og ekki síst vegna sífeldrar brunahættu, þar sem fult er af fólki, sem er blint eða kann hvorki höndum nje fótum forráð.

Ástæðan til þess, að jeg tel bráðnauðsynlegt að fá þessu komið í lag fyrir haustið, er sú, að spítalinn hefir í vetur verið í mestu vandræðum með að viðhalda steinolíulömpunum; það hefir verið nálega ómögulegt að útvega nýja lampa fyrir þá, sem hafa gengið úr sjer. Ráðsmaður kveðst ekki geta útvegað brennara eða ljósdreifara í verslununum, sem passi, og oft hörgull á hæfilegum kveikjum.

Það gæti því vel farið svo, að ekki yrði hægt að brúka steinolíuljós á spítalanum næsta vetur, þótt hægt yrði að fá steinolíu, vegna lampaskorts.“

Það er bert af brjefi læknisins, að mikil nauðsyn er á raflýsingu. Lækninum hefir verið sent tilboð um að koma upp raflýsingunni fyrir 23.165 kr. Gilti tilboðið til 30. maí, en þótt nú sje komið fram yfir þann tíma, taldi nefndin líklegt, að þeir, sem tilboðið gerðu, standi enn við það. Að svo vöxnu máli taldi hún því ekki ástæðu til að gera ráð fyrir meiri kostnaði en áætlaður var í umræddu tilboði. í sambandi við þetta er rjett að geta þess, að ekki er ástæða til að halda, að rafmagnsvekjararnir, sem nú verða keyptir, þyrftu að verða ónýtir, þótt raflýsing í stærri stíl kæmist á bjer í Reykjavík og spítalinn fengi rafmagn þaðan. Rafmagnsvekjarana mætti þá vafalaust selja til notkunar á öðrum stöðum.

Það væri óráðlegt að verða ekki við þessari nauðsyn. Það má ekki verða dimt í þessari stofnun, sem landið á að sjá um, sem viðbúið er vegna lampaleysis, jafnvel þótt olía verði til. Það er, eins og allir sjá, bráð nauðsyn á að leggja út í þetta, svo framarlega sem kostnaðurinn fer ekki að áliti stjórnarinnar fram úr allri sanngirni.