09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Pjetur Ottesen:

Við flm., S. S. og jeg, höfum leyft okkur að koma fram með þessa till. í von um, að gott mætti af því leiða, að nú væri frekar en ella brýnd fyrir mönnum nauðsynin á því, að gæta varúðar í ásetningi búpenings næstkomandi vetur. Útlitið er hið ískyggilegasta, það getur engum dulist. Grasbrestur um alt land, og það svo, að það má vel rætast úr, ef hálfur heyfengur fæst í sumar, miðað við meðalheyafla undanfarið. Svo er það t. d. víða hjer um Suðurland að minsta kosti, að lítil líkindi eru til, að nokkur tiltök verði að byrja slátt á túnum fyr en í lok þessa mánaðar. Þessi óáran í grasvextinum kemur því bagalegar á, þar sem víðast mun vera mjög lítill stuðningur í fyrningum frá fyrra ári. Síðastliðinn vetur var harður, og skall hurð nærri hælum sumstaðar með það, að búpeningur manna fjelli.

Nú er það hrossaeignin í landinu, sem mest hætta stafar af. Undanfarin þrjú ár hefir engin hrossasala út úr landinu átt sjer stað. Á þessum árum hefir hrossum fjölgað jafnt og þjett. Og þótt nú megi flytja 1.000 hesta út á þessu ári, þá segir það ekkert, það er eins og krækiber í ámu. Það gerir svo sem hvorki til nje frá. Hjer verður því að grípa í taumana. Það verður að slátra hrossum og það í stórum stíl. Það verður að gera ráðstafanir til þess að opna markað fyrir hestakjöt, miklu meiri en verið hefir hjer á landi. Það verður að reyna að opna markað fyrir það í kaupstöðunum.

Síðastliðið haust var slátrað hjer í Reykjavík þó nokkru af hrossum, en aðallega munu hafa verið búið til úr þeim bjúgu og kæfa. Lítið af kjötinu mun hafa verið selt öðruvísi. En betur má, ef duga skal.

Á aðalfundi Sláturfjelags Suðurlands, sem haldinn var hjer fyrir nokkru, var það afráðið að senda hingað til slátrunar töluvert af hrossum á úthallandi sumri, og er vonandi, að vel takist.

Eins verða menn að grípa til þess, sem ekki getur talist neitt neyðarúrræði eins og komið er, að slátra hrossum til fóðurs handa öðrum skepnum. Hrossakjöt er ágætt skepnufóður. T. d. er það mjög gott handa nautgripum.

Hjer rekur nauður til, að eitthvað sje aðhafst. Og það, sem áhrif hins opinbera gætu þá fyrst og fremst náð til, annað en það að hafa áhrif á hrossafækkunina, væri það, að greitt væri fyrir útvegun á innlendum fóðurbæti til skepnufóðurs.

Nú mun vera til hjer á landi allmikið af síld frá í fyrra. Jeg hefi heyrt nefndar um 45.000 tunnur. Englendingar eiga síldina og munu vilja selja hana, og hafa þegar selt nokkuð. Verðið á síldinni, þar sem hún liggur, mun ekki vera mjög hátt, enda mun síldin vera allmisjöfn að gæðum, en flutningur á síldinni er aftur á móti afardýr. Nú má síldin ekki verða mjög dýr, til þess að það borgi sig að nota hana til fóðurs, eins og verði á afurðunum er nú komið.

Við flutningsmenn till. höfðum því hugsað okkur, að hið opinbera gæti best orðið að liði í þessu efni, með því að haga ferðum þeirra skipa, sem landsstjórnin hefir yfir að ráða, þannig, að sem haganlegast sje þeim, sem síldina kaupa, og í annan stað gæfi dálitla ívilnun í flutningsgjaldinu. Vera má, að heppilegra og tryggara væri, að afskifti landsstjórnarinnar af þessu fóðurbætiskaupamáli næði lengra en þetta; t. d. að landsstjórnin festi kaup á síldinni að einhverju leyti, og að með því væri trygt, að flutt væri til Suðurlands svo og svo mikið af síldinni í sumar og haust, svo að ef ís bæri að Norður- og Vesturlandi í vetur, að síldin væri þá ekki þar innilokuð. Það er nauðsynlegt, að þetta atriði sje athugað gaumgæfilega.

Þá er annar liður till., að brýna fyrir sveitarstjórnum að halda fundi í haust með bændum, hver í sínum hreppi, til þess að fá gerðar hyggilegar ályktanir um ásetning búpenings. Þingsályktun í þessa átt var samþykt á síðasta þingi. Það varð þó til þess, að að minsta kosti á sumum stöðum var athygli manna töluvert meir vakandi um þessi efni en endranær, og töluvert gert að því, að afla fóðurbætis á ýmsum stöðum. En reynslan sýndi, að þetta var hvergi fullnægjandi.

Sýslumenn heimtuðu þá af forðagæslumönnum, að þeir gæfu sjer tafarlaust upp nöfn þeirra manna í hreppunum, sem að dómi forðagæslumanna settu ekki tryggilega á vetur. Forðagæslumenn sendu þegar að afloknum skoðunum skýrslu um ástandið og tilgreindu það, sem þeim leist ábótavant í þessum efnum.

Það munu nú flestir hafa búist við því, að þetta væri í því skyni gert, að hjer ætti að grípa í taumana af því opinbera, þar sem þess væri þörf, og biðu menn eftir að fá fyrirskipanir í þá átt. En þar, sem mjer er um kunnugt, gerðu sýslumenn engar ráðstafanir, þótt ábótavant væri í þessum efnum. Von um aðgerðir úr þessari átt munu því ef til vill hafa heldur dregið úr því, að forðagæslumenn beint skökkuðu leikinn, með því að beita valdi sínu, sem þeir að vonum eru ragir til, fyr en þá um seinan. Þetta getur ef til vill hafa átt sinn þátt í því, að hvatning sú, sem í þingsályktunartill. frá síðasta þingi falst, hefir ekki fyllilega getað náð tilgangi sínum alstaðar. En eins og jeg hefi áður tekið fram, var sú hreyfing, sem þingsályktunin vakti, til allmikils góðs.

Við flutningsmenn þessarar till. lítum því svo á, að rækileg hvatning frá hálfu stjórnarinnar í þessa átt, í sambandi við fyrirgreiðslu og aðstoð til útvegunar á fóðurbæti, ætti að geta haft heillaríkar afleiðingar. En stjórnin þarf að standa á bak við þetta með einbeitni og skjótum úrræðum og njóta aðstoðar bestu manna í hverju hjeraði. Og það dugir ekki að láta sitja við orðin tóm. Þetta er svo mikið alvörumál, að öðrum aðalatvinnuvegi landsins verði ekki teflt í voða með gapalegum ásetningi búpenings næsta vetur.

Síðasti liður till., um að heimila landsstjórninni nauðsynlegt fje til ráðstafana, er að þessu lúta, hneigist að því, að við höfum gert ráð fyrir ívilnun á flutningsgjaldi á fóðurbætinum, og svo ef til vill að fengnir væru einhverjir góðir og áhrifamiklir menn til að ferðast um hrossaflestu hjeruðin og beita áhrifum sínum í þá átt, að hrossunum verði fækkað. Það er mjög mikilsvert atriði. Það er ekki einungis, að hrosspeningnum einum sje stefnt í voða með því að setja þau á um skör fram, heldur er líka öðrum skepnum teflt í voða, ef ekki er gætt hófs með ásetning hrossanna.

Það mun þykja rjett að vísa málinu til nefndar til yfirvegunar, og höfum við flm. ekkert á móti því. Eftir eðli sínu á málið heima í bjargráðanefnd, og leyfi jeg mjer því að leggja til, að málinu verði vísað til þeirrar nefndar. En sökum þess, að nú er komið nær þinglokum, leyfi jeg mjer að leggja áherslu á það, að háttv. nefnd bregði skjótt við og afgreiði málið svo fljótt sem auðið er, svo að það geti orðið afgreitt frá þinginu áður en því verður slitið.