09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Pjetur Ottesen:

Jeg get fyrir hönd okkar flutningsmanna verið þakklátur fyrir þær undirtektir, er till. okkar hefir fengið hjá hæstv. atvinnumálaráðherra og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.).

Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að ívilnun í flutningsgjaldi myndi eiga að ná til alls fóðurbætis. Þetta er rjett skilið, þessi var tilætlun okkar flm., en síldina nefndi jeg sjerstaklega af því, að um þann fóðurbæti verður sennilega aðallega að ræða. Og auðvitað ætti ívilnunin í flutningsgjaldinu að ná aðallega til þeirra, sem lengst þurfa að flytja fóðurbætinn.

Viðvíkjandi því, er jeg jeg drap á, að komið gæti til mála að senda menn til að hafa áhrif á bændur í þá átt, að þeir fækkuðu hrossum, mintist hæstv. atvinnumálaráðherra á, að menn þessir gætu ef til vill keypt hross. Jeg átti nú ekki við það, en ef þessir menn gætu orðið milligöngumenn milli kaupstaðabúa og bænda í þessu efni, þá er það ekki nema gott.

Um kaup á bresku síldinni skal jeg geta þess, að jeg skaut því að eins fram til athugunar fyrir nefndina, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, án þess að við flutningsmenn höfum tekið afstöðu til þessa atriðis.

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Hann tók liðlega í till., að öðru leyti en því, að hann vill ekki fallast á, að landsstjórninni sje heimilað að verja fje úr landssjóði til þessara ráðstafana. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það myndi nema svo miklu, að ástæða væri að setja það fyrir sig, en þótt svo væri nú, að til þessa gengi nokkurt fje, þá væri því fje vel varið, eins og landbúnaðurinn stendur nú höllum fæti, enda kæmi það fje svo alment að notum. Getur verið, að ummæli hv. þm. (M. Ó ), er lutu að þessu, hafi verið sprottin af vonbrigðum yfir því, að till. frá honum var nýlega feld hjer í hv. deild, en að öðru leyti hygg jeg, að honum sje þetta ekki kappsmál.