22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Það hefir verið vakin athygli mín á því, að þó að báturinn fengist, þá þyrfti að útvega vel hæfa skipshöfn. Nefndin hefir hugsað sjer, að hjeruðin sjálf kæmu fyrirtækinu af stað og reksturinn yrði að sjá um af viðkomandi hjeraðsbúum. Það hefir nýlega í grein einni um þetta mál verið skýrt frá norskum björgunarbátum, sem nota eingöngu segl. Á slíka báta þarf sjerstaklega að hafa vel æfða skipshöfn. En jeg hygg, að það vaki ekki fyrir mönnum hjer að hafa seglbáta, heldur vjelbáta eða gufubáta, og þá auðvitað að fá vel vana menn á þá. Ætti ekki að verða skotaskuld úr því að fá skipshöfn á slíka báta. Kæmi það líka nokkuð undir því, að hve miklu leyti bátarnir gætu unnið fyrir rekstrarkostnaði með fiskveiðum o. fl. Gætu þeir með því móti gefið af sjer nokkurn arð, og mundi verða því betri kostur á að vanda til skipshafnarinnar og jafnframt launa henni sómasamlega.