29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

68. mál, bátaferðir á Faxaflóa

1453Þórarinn Jónsson:

Jeg vildi skýra háttv. deild frá, hvernig till. þessi er komin fram. Hún kemur frá samgöngumálanefndum beggja deilda. Tilefnið er það, að nú sem stendur eru ferðir þessar í þeim vandræðum, að full ástæða er til að leita fyrir sjer og breyta um til batnaðar, ef þess er nokkur kostur.

Bátur sá, sem haldið hefir uppi þessum ferðum, er nú í lamasessi, og ekki líklegt, að unt verði að nota hann framvegis. Á hinn bóginn er það öllum kunnugt, að kvartað hefir verið um talsverða óreglu á ferðum þessa báts, og fjelag það, er að honum stendur, hefir verið frekt á styrk úr landssjóði. Þannig komu á síðasta þingi tilmæli um aukinn styrk, uppbót á kolaverði, er nam kringum 12.000 kr. Samgöngumálanefndin vildi ekki fallast á þetta, og var þessum tilmælum ekki sint. Í vetur færðist fjelagið undan því að halda uppi ferðum fyrir landssjóðsstyrkinn. Bauðst þá allgóður bátur til ferðanna fyrir sama styrk, og varð það til þess, að fjelagið gekk að því að halda uppi ferðunum fyrir styrkinn. Sýnir þetta ljóslega, að styrkurinn hefir verið nægilega hár.

Samgöngumálanefndunum datt því í hug, að tiltækilegt væri að leita Eimskipafjelags Íslands. Gerðu þær tilraun til að leita álits og umsagnar stjórnar Eimskipafjelagsins, en hún sá sjer eigi fært að gefa ákveðið svar. Taldi hún ýms tormerki á þessu, það lægi fyrir utan verkahring fjelagsins, eins og nú væri ástatt. Þó gaf hún ekki afsvör, og töldu nefndirnar því rjett, að landsstjórnin hjeldi áfram þessum málaleitunum við fjelagið.

En fáist þessu ekki framgengt, er tilætlunin með till. að tryggja þó ferðirnar á annan hátt.

Fjelag það, sem haldið hefir uppi ferðunum, hefir spurst fyrir um, hvort það mætti ekki búast við styrk framvegis, ef kostur væri á að útvega nýjan bát. Nefndin svaraði því svo, að hún kvaðst eigi geta ákveðið neitt um það, en hún myndi með till. sínum sýna, hvernig hún tæki í málið. Og nú er þessi till. komin fram, er sýnir álit nefndarinnar.

Nefndin fjekk ábyggilegar upplýsingar um það, að ýmsir menn í Borgarfirði væru fúsir á að eiga hlut í skipi, er hjeldi ferðunum uppi. Hins vegar væru margir því andvígir, að þetta sama fjelag hjeldi áfram ferðunum.

Það mun óþarfi að taka fram, hve afar áríðandi þessar ferðir eru. Þær eru aðalsamgönguliðurinn milli Suður- og Norðurlands og Suður- og Vesturlands. En eins og kunnugt er, er þeim nú haldið uppi af svo litlum bát, að alger óhæfa er. Jafnframt því, sem lífi manna er stöðug hætta búin með slíkum bát, getur hann tepst vegna veðurs fleiri daga samfleytt, og það að sumarlagi, og sjá allir, hvílíkt ómetanlegt tjón slíkt getur orðið öllum, sem hlut eiga máli. Auk þess hefir hann engan veginn fullnægt flutningaþörfinni með þeirri áætlun, er bann hefir haft. Er því áríðandi, að stjórnin taki málið að sjer og sjái fyrir nægilega stóru skipi, er tryggi heilsu og líf manna og geti fullnægt flutningaþörfinni, sem er allmikil.

Það er því von mín, að þessi till. nái fram að ganga.