26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) vildi gefa í skyn, að það að vísa málinu til bjargráðanefndar mundi vera sama og að eyðileggja málið, og mundum við með brtt. vilja hindra, að árangur yrði af rannsókninni. Þetta var óþarfa getsök í okkar garð, þar sem jeg í fyrri ræðu minni færði full rök að því, að engin önnur nefnd en bjargráðanefnd hefði jafngóð tök á að fjalla um þetta mál, þar eð hún væri því kunnug frá síðasta þingi, skipuð sömu mönnum og þá og ætti hægt með að afla sjer upplýsinga því viðvíkjandi. Það var því síst svo að skilja, að við flm. brtt. værum að gera málinu ógagn með henni, heldur þvert á móti.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) gerði nú sjálfur ekki ráð fyrir, að sjerstök nefnd mundi komast til botns í málinu, og því þá að skipa hana fremur en fela málið nefnd, sem líkleg er til að komast til botns í því?

Sumt af því, sem háttv. flm. þingsál.till. (G. Sv.) vildi fela þessari sjerstöku nefnd að rannsaka, finst mjer þess eðlis, að það væri bæði óþarfi og ógerningur að rannsaka slíkt. Get jeg þar t. d. nefnt mannaráðningu stjórnarinnar, hve heppilega henni hafi farist í vali sinu á mönnum o. s. frv., sem háttv. flm. (G. Sv.) taldi eitt af störfum væntanlegrar nefndar að athuga. Um slíkt yrði aldrei neitt ákveðið hægt að segja, því að altaf má um það deila, hversu hæfir menn sjeu valdir í þessa og þessa stöðu.

En það eru önnur atriði, og þau mikilvægari, sem hjer þarf að rannsaka og líka ætti að vera hægt að komast til botns í, ef bjargráðanefnd fjallaði um málið, og þó að sjerstök nefnd verði nú kosin, þá er nokkurn veginn víst, að margir sömu mennirnir munu verða í henni og eru í bjargráðanefnd.