16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi borið mig saman við ágætan lögfræðing um það, hvort ekki væri rjettast að leita samþykkis deildarinnar til þessarar málshöfðunar. Mjer fyrir mitt leyti hefði auðvitað aldrei dottið í hug að neyta þinghelginnar til þess að skjóta mjer undan málssókn. En það er ekki víst, hvort hægt væri að höfða mál gegn nokkrum þingmanni fyrir ummæli hans á þingfundi, án samþykkis deildarinnar, jafnvel þótt bann samþykki málssóknina sjálfur.

Jeg sje enga ástæðu fyrir deildina að neita um samþykki sitt til þessa leyfis, nema sá, sem hlut á að máli, vilji neyta þess rjettar, sem lögin heimila að þessu leyti.

Það er því ósk mín, að deildin veiti þetta leyfi án frekari umræðu.