22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.): Vegna þess, hve mikið háttv. 2. þm. G. K. (K. D.) gerði úr því, hvað þetta yrði umfangsmikið kerfi, skal jeg geta þess, að stjórnin mun koma þessu fyrir á svo einfaldan og fábrotinn hátt, sem mögulegt er. Það hefir jafnvel komið til mála, að frímerki verði notuð sem stimpilmerki. En um þetta er ekkert enn fastráðið. Viðvíkjandi ósk sama þm. (K. D.) um, að fram kæmi nýtt skattafrv., mjer skildist helst einhverskonar útflutningsskattsfrumv., skal jeg geta þess, að jeg er mjög efins um, að slíkt frv. næði fram að ganga í háttv. Nd. En háttv. Nd. tók þessu frv. vel, þar var það samþ. með 17:2 atkv.

Um tillögu háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) er það að segja, að hún er þess verð að verða tekin til athugunar, og vænti jeg, að háttv. fjárhagsnefnd muni gera það. Af stjórnarinnar hálfu mundi það engum ágreiningi valda; hún mundi að eins þakklát, ef fyndust auðveldari leiðir í þessu máli en hún hefir komið auga á.