18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (1635)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Björn R. Stefánsson:

Til þess að spara umræður skal jeg taka það fram strax, að brtt. á þingskjali 114 verður tekin aftur. En fyrst jeg er staðinn upp, þá ætla jeg að tala dálítið um frv. sjálft. Jeg hefi frá upphafi haft ímugust á þessu frv. Ekki fyrir það, að jeg viðurkenni ekki, að krafan um hækkuð laun sje sanngjörn, frá læknanna sjónarmiði, þegar litið er til þeirrar verðhækkunar, sem orðin er á öllum lífsnauðsynjum. En sama er að segja um alla, sem goldið er í peningum. Það er satt, að læknar fá enga dýrtíðaruppbót af aukatekjum sínum. það fá ekki heldur sýslumenn nje prestar. Það mundi því verða erfitt að neita kröfum þeirra, eftir að búið er að fullnægja læknunum, ef þeir gerðu tilkall til að fá dýrtíðaruppbót af aukatekjum sínum. Jeg verð reyndar ekki var við, að neinn ætli að taka tillit til kröfu sjera Sveins Guðmundssonar í Árnesi, sem liggur frammi í lestrarsal þingsins. Verður því þó tæplega neitað, að þar sje um sanngirniskröfu að ræða, þar sem farið er fram á dýrtíðaruppbót á tekjum, sem eru margfalt minna virði nú en fyrir stríðið. Á jeg þar við dúntekju. Dúnninn er nú í helmingi lægra verði en fyrir stríðið, og svo er hver króna meira en helmingi minna virði nú en þá var, og loks kostar hirðing dúnsins og hreinsun helmingi fleiri krónur nú en þá.

Ekki held jeg að þeirri ástæðu verði við kornið, að afkoma lækna sje neitt verri en presta og sýslumanna, enda held jeg ekki, að laun þeirra sjeu neitt lakari, ef alt er talið með, bæði föstu launin, borgun fyrir aukaverk og meðalasala. — En málið hefir frá mínu sjónarmiði aðra alvarlegri hlið. Hjer er verið að taka frá þeim hluta þjóðarinnar, sem allra síst geta borgað, sem sje sjúklingunum. Flestir munu vera samdóma um það, að sjúkdómar sjeu þeir þyngstu skattar, sem á menn geta lagst, og að leggja, núna í dýrtíðinni, ofan á aðra erfiðleika, þá kvöð á sjúklingana, að láta þá borga dýrtíðaruppbót læknanna, tel jeg óverjandi. þá sjúklinga er veruleg ástæða til að styrkja, í stað þess að leggja á þá nýjar byrðar.

Ef ekki er hægt að komast hjá því að bæta laun læknanna nú þegar á þessu þingi, þá held jeg, að menn ættu að reyna að finna einhverja aðra leið til þess. Jeg fyrir mitt leyti vil fara alt aðra leið til að borga læknunum fyrir verk sín. Jeg vil, að gerð sje gangskör að því að stofna sjúkrasjóði í hverri sveit, og reynt sje að gera þá svo sterka, að þeir geti borgað alla læknishjálp.

Hæstv. forsætisráðh. fanst það varhugavert að borga læknum algerlega úr landssjóði. Hann óttaðist, að þeir mundu þá verða skeytingarminni um sjúklingana. Það held jeg að sje ástæðulaus ótti. Jeg hefi að minsta kosti svo gott álit á læknunum, að jeg held það sje miklu fremur skyldurækni þeirra og samviskusemi í embættisfærslu, sem knýr þá út í erfið ferðalög, en þessir 30 aurar, sem þeir fá um klukkutímann.

Einnig benti hæstv. forsætisráðh. á það, að þessi taxti væri svo lágur, að það kæmi illa niður, þar sem „praktiserandi“ læknar hefðu óbundnar hendur til að taka svo mikið sem þeim sýndist fyrir sína læknisdóma. En þetta sýnist benda til þess, að ef lækning er ódýrari hjá fastalæknum, þá ættu þeir að hafa því meiri aðsókn og þar af leiðandi meiri tekjur, það er að segja, ef þeir eru eins færir læknar eða betri.

Hjer í fylgiskjali við frv. er bent á taxta Norðmanna. En um hann segi jeg: Mig varðar ekkert um taxta Norðmanna. Jeg vil læra af útlendingum það, sem betur má fara og er við okkar hæfi, en það, sem ekki er við okkar hæfi varðar okkur ekkert um. Jeg kæri mig ekki um að elta alt uppi, þótt útlent sje, ef það ræður enga bót á því, sem fyrir er hjá okkur, og því síður ef það gerir það gagnstæða.

Jeg er ekki með þessu að mæla því mót, að læknum sje betur goldið fyrir verk sín. En viðbót við laun þeirra vil jeg ekki láta sækja í vasa þeirra, er við erfiðust kjör eiga að búa og ekkert mega missa.