27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (1654)

104. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg skal ekki verða fjölorður, en það vil jeg láta hv. þm. vita, að þó þeir nú drepi þenna uppvakning, þá eru þeir samt ekki lausir við hann, því svo segir að minsta kosti þjóðtrúin, að slíkir uppvakningar gangi þá aftur og fylgi eftir það þeim, sem drap hann. Jeg þykist því vita, að þótt það takist að sálga þessum uppvakningi, þá mundi hann samt ekki láta þá í friði, því hann verður með órjettu drepinn.

Það, sem aðallega greinir hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og mig í sundur, er það, að hann vill láta landið borga læknunum alt, en það get jeg ekki fallist á, og það var þessi stefna, sem nefndin gat ekki heldur fallist á. Þessi stefna ríður líka beinlínis í bága við þá venju, sem tíðkuð er. Hví borga menn smiðnum fyrir að byggja hús, og hví skyldu menn þá ekki alveg eins borga lækninum fyrir unnið verk sitt, verk, sem hefir í för með sjer bætta heilsu? Jeg verð því að álíta þá stefnu rjetta, að láta sjúklingana borga nokkuð af því, sem læknirinn kostar, og má hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hanga í þessari skoðun eftir þörfum, og finna alt það til foráttu, sem hann getur, því hún verður jafnrjett eftir sem áður. Þá sagði hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að það væri ekkert gert af landssjóðs hálfu til þess að minka böl sjúklinganna, en þetta er ekki rjett, því þar sem sjúkrasamlögin eru komin á, þar leggur landssjóður þeim nokkurt fje. pá var sami hv. þm. að tala um, að vissir menn væru að gera úlfaþyt út af þessu. En mjer er spurn, hver gerir meiri úlfaþyt í þessu máli heldur en hann sjálfur og hans samherjar?

Þá vil jeg lýsa yfir því, að jeg fyrir mitt leyti mun greiða atkvæði mitt með því að hækka föst laun lækna eftir því sem ráð er gert fyrir á þgskj. 393, ef þetta yrði ekki samþ., en það verð jeg að segja, að mjer er það þvert um geð, þó jeg neyðist til þess að gera það, því það er mín sannfæring, að læknar eigi að fá borgun frá þeim, sem mest hafa þörf fyrir þá. Og ef hver einstaklingur út af fyrir sig treystist ekki til þess að borga lækninum, þá eiga menn að slá sjer saman í sjúkrasamlög og bera þannig hver annars byrði. Hv. þm. N.- Þ. (B. Sv.) getur ómögulega varið sig fyrir því, að hann hefur ekkert gert til þess að bæta kjör lækna, þrátt fyrir orðamergð sína, annað en að rífa það iður, sem aðrir hafa reynt að byggja upp, og sjá allir hvílík hjálp er að slíku.