27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (1659)

104. mál, skipun læknishéraða

Magnús Pjetursson:

Jeg get verið stuttorður að þessu sinni.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) gaf mjer sjerstaklega tilefni til þess að kveðja mjer hljóðs aftur. Hann hefir fetað í fótspor annara, að því leyti, að hann afsakar framkomu sína í þessu máli með því, að hann hafi bent á aðra leið en þessa. En hinu sama gegnir um hann og aðra hv. þm., hann gerir ekkert frekara en að benda. En læknar hafa ekkert gagn af þessum bendingum hans, jafnvel þó þeir hefðu allir getað sjeð fingurinn.

Háttv. þm. (E. J.) var að kvíða fyrir því, að veitti þingið læknum dýrtíðaruppbót af aukatekjum þeirra, myndu þeir freistast til þess að gefa þær upp upp of háar. Háttv. þm. þekkir sennilega tíundasvik og hefir ef til vill búist við slíku hjer. En jeg þykist hafa skjallegar sannanir fyrir því í höndum, að læknar munu tíunda aukatekjur sínar rjett. Árið 1917 urðu þeir að telja fram aukatekjur sínar fyrir 1917, og fengu þá uppbót á þeim. Fjórðungur lækna gaf þá upp að eins 50—500 kr. aukatekjur á ári, helmingur 500—1.000 kr., og einungis fjórði hluti allra lækna hafði yfir 1.000 kr. aukatekjur árlega. Þessa skýrslu kalla jeg skjallega sönnun fyrir því, að aukatekjurnar sjeu rjett taldar fram. Auðvitað er bókfærsla lækna ekki svo nákvæm alstaðar, að þeir geti tíundað aukatekjur sínar upp á eyri, heldur verða þeir að áætla þær svo, sem þeir geta rjettast.

Þá kom fram eitt atriði í ræðu háttv. þm. (E. J.), er mjer þótti næsta hjákátlegt. Hann kvað ekki rjett að miða ferðakaup lækna við kaup vinnumanna. En við það hefir þó verið miðað í lögunum frá 1907, er tímakaup lækna var ákveðið 30 au., sem var hærra en alment verkakaup var þá, en það mun ekki hafa farið fram úr 25 au. Þó var það enn undursamlegra, er hv. þm. (E. J.) sagði, að öðru máli væri að gegna um kaup lækna, heldur en um kaup vinnumanna. Læknum væri sjeð fyrir flutningstækjum, þeir væru fluttir ókeypis og ferðuðust alveg ókeypis, þyrftu ekki að leggja annað til en tíma sinn. Ekki veit jeg hvernig hv. þm. (E. J.) hagar til með vinnumenn sína. Jeg býst við því, að hann leggi þeim til hesta í kaupstaðaferðir, eða eiga þeir kann ske að borga hestlán fyrir þær ferðir, sem þeir fara í þarfir hans? Og enn lengra er hægt að jafna til vinnumanna, þar sem húsbændur leggja þeim þó til verkfæri, en læknar verða að útvega sjer verkfæri sín sjálfir.

Háttv. þm. (E. J.) sagði, að engar skammir myndu hafa áhrif á sig. þetta getur rjett verið, en ekki álíti jeg hann minni mann, þó að hann tæki tillit til þess, er vitrir menn og góðgjarnir leggja til málanna. Og sýnilega hefir það haft einhver áhrif á hann og rumskað við honum og fleiri háttv. þm., svo að þeir hafa áttað sig á því, er þeir hafa gert.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað mig hafa farið með misskilning og útúrsnúninga. En mjer þótti vænt um, að hann heyktist á stóryrðunum, er hann bar fram í fyrri ræðu sinni. Hann hefir sjeð, að hann hafi þá ofmælt. Jeg skal ekki rengja, að hann hafi verið óviðriðinn brtt., er kom fram við frv., er felt var. En hitt gladdi mig, að hann skuli einnig hafa verið óviðriðinn það ráðabrugg, er fór fram áður en frv. var drepið.

Hv. þm. (B. Sv.) láði mjer, að jeg skyldi ekki, er jeg fann mótþróa gegn frv., hafa borið fram brtt. í þá átt, er hugir manna hneigðust. Því er til að svara, að jeg var ekki flutnm. frv., heldur framsm. fjárveitinganefndar, er flutti frv., og hafði jeg enga heimild til þess að ganga í berhögg við hana og bera fram brtt. í eigin nafni. Og svo er annað. Ættu menn, er flytja frv., að hlaupa til og bera fram brtt., er aðrir segjast sjá betri leið í málinu? — Jeg þakka fyrir, það er þeirra að flytja brtt., er sjá, að eitthvað megi betur fara eða finna rjettari brautir.

Menn hafa sagt svo margt um mál þetta, að jeg get ekki farið langt út í þá sálma. En mjer þótti vænt um að heyra, er hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að hann vildi ekki, að læknar fengju öll laun sín úr landssjóði, heldur ættu þeir að fá einhverja þóknun fyrir læknisverk sín. Þá gengur hann ekki alveg eins langt og sumir aðrir, er fylgja þeirri stefnu, að læknar skuli ekki fá nein laun annarstaðar en úr landssjóði. En nú vil jeg spyrja hv. þm. (B. Sv.), hvort hann álítur, að læknar muni fá meiri þóknun fyrir verk sín en árið 1907, er gjaldskráin var samin, þó að taxtinn væri hækkaður nú um 50%, hvort þeir fái jafnmikið til framflutnings á lifi sínu sem árið 1907, og hvort þeir, er eiga að greiða lækni þóknun fyrir starf hans, greiði jafnmikið sem þá. Jafnvel þó að taxtinn verði hækkaður nú, þá er að eins verið að færa gjaldið í þá áttina, að það verði hið sama sem áður, eftir verðgildi þess gjaldeyris, sem goldið er með.

Hv. þm. (B. Sv.) gat þess, að þar sem sumir læknar hefðu þegar hækkað taxtann og tækju meira gjald af efnuðum mönnum, þá gæti tilgangurinn með frv. þessu ekki verið annar en sá, að pína fátæklingana til þess að gjalda einnig hærra. Þessu er þó ekki þannig varið. Frv. er einmitt komið fram vegna þess, að margir læknar kynoka sjer við að hækka gjaldið, nema þeir hafi lög að baki sjer. Og það er alkunna, að það eru ekki altaf fátæklingarnir, er telja eftir að greiða læknunum þóknun, heldur skirrast efnamenn alveg eins við að gjalda meira en þeim ber, að jeg hefi einmitt fremur heyrt getið um eftirtölur úr þeirri átt. Býst jeg því við því, að engu síður þurfi að beita lögunum við efnamenn.

Um till. þá, er fjárveitinganefnd hefir ekki skilað frá sjer, vil jeg geta þess, að verði þetta frv. felt, geri jeg ráð fyrir, að nefndin muni láta þá till. koma fram. Þingið getur þá skorið úr, hvora leiðina það vill heldur fara, en það átti ekki við að ræða þetta tvent í einu.