02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1677)

107. mál, verðlagsnefndir

Pjetur Ottesen:

Jeg sje á nefndaráliti bjargráðanefndar, að hún hefir komist að sömu niðurstöðu og jeg komst að í framsöguræðu minni á dögunum, um að störf verðlagsnefndar hafi borið lítinn sem engan árangur. En hún hefir fært þessa niðurstöðu sína í svo mildilegan og áferðarfallegan búning; en það skín þó út úr öllu, að ekkert hefir upp úr starfi nefndarinnar hafst.

Nefndarálitið byrjar á því að segja frá, að nefndin hafi felt 10 úrskurði á árinu 1917, til 19. júní þ. á., og eru að eins tveir þeirra nú í gildi. Mjer er ekki kunnugt um, hvaða úrskurðir það eru; sennilega eru það úrskurðir um hangikjöt og kæfu og beitutöku á Breiðafirði. Jeg spurði hv. þm. Snæf. (H. St.) að því, hvort nokkurt gagn hefði orðið að úrskurðinum um beitutökuna, og kvað hann nei við því. Við sama tón kveður hvaðanæfa þar, sem verðlagsnefnd hefir eitthvað slett sjer fram í. En þó að þetta sje þann veg vaxið, þá dettur mjer ekki í hug að efa, að nefndin hafi ef til vill töluvert aðhafst. En jeg staðhæfi, að öll hennar störf hafi að mestu verið unnin fyrir gýg. Jeg veit að vísu, að hægt er að þylja hjer upp langar romsur af tölum og benda á stóra skjalabunka um rannsókn á vöruverði, en árangurinn af öllu því braski hefir orðið einn og sami, bara fálm út í loftið.

Þetta er skriffinskunnar öld, sem vjer lifum á, enda mun verðlagsnefndin vera í þessu efni skilgetið barn sinnar aldar. Þá skal jeg snúa mjer að því, sem hv. frsm. (S. St.) sagði viðvíkjandi þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg skil nú . ekki hvernig á því stendur, eftir þessa niðurstöðu, sem hv. bjargráðanefnd hefir komist að um árangurinn af starfi verðlagsnefndarinnar, að hún skuli vera að burðast með þetta frv. Og síst skil jeg í því, að hv. frsm. (S. St.), sem er meðflutningsmaður minn að frv. um afnám verðlagsnefndar, skuli hafa gengið inn á þetta.

Hv. bjargráðanefnd viðurkennir, að verð á aðfluttum vörum sje alt komið í hendur stjórnarinnar, fyrst og fremst af því, að landsverslunin kaupir upp á eigin spýtur meginið af öllum nauðsynjavörum, er til landsins flytjast, og auk þess ganga reikningar yfir allar aðrar vörur, sem fluttar eru til landsins, gegnum hendur innflutningsnefndar.

Það er því hægt um vik fyrir stjórnina að fá nákvæmar upplýsingar um innkaupsverðið, og getur hún því, að fengnum þeim upplýsingum, ákveðið hæfilega álagningu. Eins get jeg ekki skilið það, að stjórnin geti ekki með aðstoð þeirra nefnda, sem hún hefir í kring um sig, haft eins gott eftirlit með útsöluverði smákaupmanna og verðlagsnefnd hafði, og gripið í taumana, ef henni þykir þörf. Jeg skil ekki annað en að það sje ósköp hægt við að jafnast. En nú eru tómir stórsalar í innflutningsnefndinni, segir hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), en það er ekki rjett, því þar á sæti formaður Búnaðarfjelags Íslands. Auk þess geri jeg ráð fyrir, að stjórnarráðið hafi valið þá menn eina í þessa nefnd, sem treysta megi til þess að gera skyldu sína, og þá eins í þessu efni sem öðru. Það hlyti líka að koma bráðlega í ljós, ef þessir menn gerðu sig bera í rangindum, og væri það, frá þeirra sjónarmiði sjeð, hið mesta glapræði að reyna til að beita hlutdrægni, því ef það kæmist upp, mundi það leiða til þess, að þeir krossfestu bæði sig og sína stjettarbræður. Jeg held því, að það sje óhætt að segja það, að alt verksvið verðlagsnefndar sje horfið, hvað aðfluttar vörur snertir, enda tók hv. framsm. (S. St.) það fram, að það væri ekki af því, að hann álíti verulegt gagn að þeim verðlagsnefndum, sem í þessu frv. er gefin heimild til að stofna. En hvað er það þá, mjer er spurn, sem hefir komið honum til þess að gerast meðflutningsm. þessa frv.? Það er svo sem sýnt, hvað á að verða starfssvið þessa verðlagsnefndarbróður, eða hvað maður á að kalla það. Útlenda varan heyrir ekki lengur undir verksvið verðlagsnefndarinnar, og þó þessi verðlagsnefndarbróðir verði fullburða hjer, sem jeg tel nú ólíklegt að verði, þá á hann ekkert erindi á þau mið. Það er þá innlenda varan, sem á að beina þessu skeyti að. Jeg tók greinilega fram, við framsögu mína í þessu máli, að afskifti þau, sem verðlagsnefndin hefir haft af innlendum afurðum, bentu alls ekki til þess, að halda ætti þeirri nefnd eða neinni slíkri við lýði, til þess að þræða þær brautir, sem hún fór. Og jeg verð að telja það mjög óráðlegt, og það styður þegar fengin reynsla í því efni, að setja verðlagsnefndir til höfuðs innlendri framleiðslu. Það þarf þá að vera góð trygging fyrir því, og það mikið betri trygging en sett er í þessu frv., — að því sje ekki beitt þannig, að tjón geti af hlotist, og það einmitt fyrir þá kaupstaðina, sem þetta á að koma að haldi. Aukning og efling innlendrar framleiðslu er, eins og nú er komið með aðföng öll til landsins, lífsskilyrði þessarar þjóðar. En ef framleiðendur eiga verðlagsnefndarbrandinn reiddan yfir höfði sjer, þann, sem brugðið var að smjörversluninni 1917, já, þá getur farið svo, að ekki sje við góðu að búast. Þó að mjer blandist svo sem ekki hugur um það, að forlög hámarksverðs á innlendum framleiðsluvörum, verði þau sömu hjer eftir sem hingað til, að hámarksverðið verði að litlu eða engu haft, þá getur hver heilvita maður sjeð, að það er ekki hvöt fyrir framleiðendur til að leggja sig í líma með framleiðsluna, þegar þeir mega ekki um frjálst höfuð strjúka með afurðirnar og verða að versla í pukri, ef framleiðslan á að borga sig. Það eru ekki allir, sem mundu sætta sig við það, að verða að versla þannig huldu höfði með það, sem þeir með erfiðismunum og áhættu hafa framleitt í sveita síns andlitis. Afleiðingin mundi verða sú, að margir þeirra mundu draga sig í hlje með framleiðsluna og alls ekki kæra sig um það, að verða settir í neitt verðlagsnefndarskrúfstykki. Afleiðingin af því er öllum auðsæ. Og mjer þykir það satt að segja skjóta nokkuð skökku við, ef þingið getur ekki fallist á það nú að þoka úr veginum þeim lagaákvæðum, sem hætta getur stafað af í þessa átt. Og mjer finst það brjóta í bág við þá hugsun og þann anda, sem undantekningarlaust hefir komið fram hjá þingmönnum, nauðsynina á því, að framleiða sem allra mest í landinu sjálfu, þó að hins vegar hafi verið nokkuð skiftar skoðanir um aðferðina til þess. það getur því blátt áfram stafað hætta af því fyrir þjóðarbúskapinn í heild sinni, að fá slíka heimild sem þessa í hendur einstökum bæjarfjelögum, sem fá þetta verðlagsnefndarstarf aftur í hendur mönnum, sem ef til vill hlaupa eftir órökstuddum sleggjudómum óhlutvandra og gerræðisfullra manna, sem blöðin kunna að leyfa rúm í dálkum sínum. Greinum, sem með fullum sanni má slíkt um segja, hefir öðru hvoru skotið upp í blöðunum, og er það ilt að leggja fjöregg landsins, framleiðsluna, á slíkar metaskálar.

Framleiðendur þessa lands, bæði til sjávar og sveita, hafa heldur ekki gefið neitt tilefni til þess að vera með þetta verðlagsnefndarfargan. Þeir hafa alls ekki gert neina tilraun til þess að selja vörur sínar fram yfir það, sem nauðsynlegt var. En eðlilega hefir innlenda varan hækkað mjög í verði, sökum þess hve framleiðslukostnaðurinn hefir aukist gífurlega.

Háttv. framsm. (S. St.) mintist á brauðgerðarhúsin, að gott væri, og má ske nauðsynlegt, að geta haft hönd í bagga með þeim. Jú, það getur nú verið svo. En hvað sýnir undangengin reynsla á því sviði? Verðlagsnefndin hásæla hefir engan úrskurð felt yfir brauðsölunum. Nei, alls engan; en að vera að halda því fram, að verðlagsnefnd hafi unnið svo og svo mikið gagn með því, að fara bónarveg að mönnum, bæði brauðsölum og kaupmönnum, er blátt áfram broslegt. Það er bara til að segja eitthvað. Enda er hætt við, að það hefði ekki hrifið mikið, þar sem mönnum var kunnugt um, að verðlagsnefndin stóð magnlaus að baki þeim.

Jeg mintist á það í framsöguræðu minni um þetta mál, að hámarksverð verðlagsnefndar hefði orðið til þess að hækka vöruverð á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Smjörverð hækkaði að mun á Vestur- og Norðurlandi og blautfisksverð á Ísafirði og Vestmannaeyjum og víðar. Svona er það, það er alt á sömu bókina lært.

Hæstv. atvinnumálaráðherra er nú farinn af fundi, og skal jeg því ekki fara inn á ræðu hans. Hann var eitthvað að tala um góð áhrif af starfi verðlagsnefndar, en jeg verð að segja það, að jeg get ekki almennilega gert mjer grein fyrir því, af hvaða sjónarhæð hann getur komist að þeirri niðurstöðu.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) þarf jeg ekki að svara; ræða hans gaf ekki tilefni til þess.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði sanngjarnlega um þetta mál. Hann sagði, að verðlagsnefndina hefði brostið heimild til þess að geta orðið að verulegu liði. Jeg man eftir því, er hann talaði um verðlagsnefndina á síðasta þingi, að þá tók hann dýpra í árinni og sagði, að verðlagsnefndin hefði verið til ills eins, en engu góðu til leiðar komið. Vil jeg leyfa mjer, að fengnu leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð, er hann viðhafði um verðlagsnefndina í fyrra. Þar kemur fram svo góð og hárrjett lýsing á starfsemi verðlagsnefndar, og góð vísa er aldrei of oft kveðin. Þar segir hann: „Afskifti verðlagsnefndar af smjörverðinu hafa ekki orðið að neinum notum. Smjörverðið hefir þvert á móti hækkað fyrir bragðið. Enda er það eðlilegt, þar sem hámarksverðið hefir haft þau áhrif, að smjörframleiðsla hefir stórum minkað. Afskifti hennar af smjörverðinu mega því teljast verri en gagnslaus. Jeg vil því styðja tillögu þá, sem fram er komin. Heppilegra hefði kann ske verið, að hún hefði komið fram í öðru formi, og jafnvel mælt svo fyrir, að verðlagsnefndin skyldi afnumin með öllu. Enginn efi er á, að hámarksverðið hefði sömu afleiðingar að sumri og það hefir nú, og því þarf að afnema það. Satt að segja virðist mjer verðlagsnefndin ekki hafa orðið til neins gagns. Hún hefir ekkert skift sjer af verði á útlendri vöru.“ Þannig mæltist hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) í fyrra, og þá skaut hann því líka fram, til bjargráðanefndar, hvort ekki væri hægt að losna við eitthvað af hinum mörgu nefndum, og segir: „Rjettast væri að hverfa frá öllu þessu nefndabraski, sem átt hefir að bæta úr styrjaldarvandræðunum. Þær hafa drjúgum aukið óáran í landinu, valdið óþarfa útgjöldum úr landssjóði og auknum álögum á landsmenn. Það er því eitt, sem bjargráðanefndin ætti að athuga, hvort ekki væri hægt að losna við eitthvað af óþörfum nefndum.“ Þetta er vel og skörulega sagt, eins og vænta mátti af þessum hv. þm.

Nú virðist hann vera dálítið linari í þessu máli, þó hann reyndar, bæði beinlínis og óbeinlínis, viðurkenni enn gagnsleysi og skaðlegar afleiðingar þessarar vandræðanefndar. Hann er nú sem sje einn af nefndarmönnum, en það var hann ekki á síðasta þingi.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en jeg lít svo á, að það eigi alls ekki að samþykkja þetta frv., heldur stíga sporið til fulls og afnema verðlagsnefndina með öllu. Það eru nóg skakkaföllin á hærri og lægri stöðum, þó ekki sje verið að halda í verðlagsnefndina, til þess að bæta við syndaregistrið.