29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (1710)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg vildi að eins gera nokkrar athugasemdir út af því, sem sagt hefir verið. Það er þá fyrst um vonirnar um árangur af lögum þessum. Eins og gefur að skilja, eru það að eins vonir. Reyndin ein getur skorið úr því, hver árangurinn verður. Og jeg þykist ekki hafa látið í ljós háar vonir um hann, því að það er siður minn að fullyrða ekki um það, sem jeg veit ekki um, og það, sem framtíðin felur, getur enginn vitað um.

Þá er annað atriðið, að hámarksverð frv. nái ekki gangverði nú, svo að framleiðendur geti ekki gert sjer vonir um gott verð á vöru sinni, en það er einmitt tilgangur frv. að draga úr því óhæfilega háa smjörverði, sem nú er, þar sem verðhækkun á því er meiri en á nokkurri annari innlendri vöru.

Hvað því viðvíkur, að lítið mundi berast í hendur landsverslunarinnar, þá er því til að svara, að svo framarlega sem fráfærur ykjust, þá mundi framleiðsla á smjöri aukast svo, að mörg hjeruð mundu hafa smjör aflögu, og þá auðvitað selja það landsversluninni.

Þá hefir því verið haldið fram, að lítill árangur mundi verða af starfi umsjónarmanna. En það fyrirkomulag er bygt á skýrslum, sem reyndar hafa verið í Þingeyjarsýslu og hafa reynst ábyggilegar.

Um það, að viðskiftin yrðu ógreið, er það að segja, að undanþágan er veitt til þess að greiða fyrir viðskiftavinum innan hjeraða, en landsverslunin á að greiða fyrir þeim milli fjarlægra hjeraða.