03.06.1918
Neðri deild: 38. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (1731)

23. mál, skipamiðlarar

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Skömmu eftir að allsherjarnefnd hafði fengið þetta frv. til athugunar barst henni einnig uppkast að frv. til laga um verslunar- og siglingamiðla, eins og skýrt er frá í nál. Þar sem það frv. er miklu yfirgripsmeira og nær lengra en þetta frv., en málið þarfnast hins vegar nákvæmrar íhugunar, þótti nefndinni rjettast, að ekki yrðu nein lög um miðla afgreidd á þessu þingi. Leggur nefndin því til, að frv. verði afgreitt til stjórnarinnar og henni falið að leggja ítarlegt frv. um miðla fyrir næsta þing. Nefndin stingur upp á, að þetta verði gert með rökstuddu dagskránni, sem prentuð er í nál.

Önnur ástæða liggur til þess, auk þeirrar, sem áður er getið, og hún er sú, að nefndin sá sjer ekki fært að taka svo mikinn lagabálk sem þennan til nákvæmrar íhugunar á þessu þingi, þar sem svo var á liðið þingtímann, er frv. kom fram, enda þess engin þörf að afgreiða það nú, þar sem skamt er nú til reglulegs þings.