18.05.1918
Efri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (1734)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Aðalástæðurnar fyrir frv. þessu eru teknar fram í greinargerð þeirri, er fylgir frv., og er því ekki ástæða til að reifa það löngu máli. Nefndin hefir borið frv. undir bjargráðanefnd hv. Nd., og hefir hún tekið því vel.

Það má segja, að fólksráðningaskrifstofa hjer í Rvík muni ekki gera mikið gagn í vor hjeðan af. Þó er hugsanlegt að svo verði, ef síldarútvegurinn bregst og margir standa atvinnulausir. Og næsta vetur ætti að geta fengist reynsla um það, hvort ekki mætti verða gagn að fólksráðningaskrifstofu þeirri, sem hjer er ráðgerð.

Það er ekki búist við, að til þess komi, að landsstjórnin ráðstafi fólki, nema mjög mikil bjargarvandræði verði. Slík vandræði eru enn ekki orðin, sem betur fer, en þau geta skollið á nær sem verða vill, og þá er betra, að stjórnin hafi lög sem þessi að gripa til.

Jeg óska því, fyrir nefndarinnar hönd, að hæstv. deild taki frv. vel og vísi því til 2. umr.