14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (1804)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Björn Kristjánsson:

Jeg minnist þess, að jeg mælti nokkur orð gegn þessu frv., er það lá hjer fyrir á síðasta þingi, og það er vitanlegt, að jeg hefi ávalt verið því mótfallinn, að þingið veiti slík einkaleyfi. Jeg er þessu enn mótfallinn, og það af þeirri ástæðu, að hjer er ekki farið eins að og tíðkast í öðrum löndum. Þar eru veitt einkaleyfi til þess að nota ákveðin áhöld, er menn hafa fundið upp. En hjer er ekki um það að ræða, heldur um hitt, að veita einkaleyfi til þess að selja og framleiða ákveðna vörutegund.

Í frv. er ekki ljóst, hvort átt er einungis við einkaleyfi til að þurka kjöt með vjelum, eða hvort einnig er átt við einkaleyfi til útflutnings. Í 1. gr. frv. segir svo: „Landsstjórninni veitist heimild til að veita einkarjett um 10 ár, frá því er leyfið er veitt, til þess að vjelþurka á Íslandi kjöt, sem ætlað er til útflutnings ....“. Hjer virðist að eins átt við einkaleyfi til að þurka kjötið, en annars eigi salan að vera frjáls. En í 5. gr. frv. segir: „þegar 5 ár eru liðin eða meira frá því, er einkaleyfishafi tók að flytja út þurkað kjöt ....“. Þetta orðalag virðist benda til þess, að einkaleyfið eigi einnig að ná til sölu á kjötinu.

Ef skilja á frv. á þessa leið, er annar hængur á því. Rjettur landsstjórnarinnar til að taka einkaleyfið í sínar hendur er bundinn við 5 ár frá því, er einkaleyfishafi tók að flytja út kjöt. Einkaleyfishafi þarf alls ekki að flytja út kjötið sjálfur. Hann getur látið annan gera það, og kemur þetta tímatakmark þá ekki til greina. (E. J.: Þá er 10 ára takmarkið). Jú, það er að vísu rjett, en þetta er engin takmörk.

Það er rangt gert af þinginu að veita slíkan einkarjett, nema sannað sje, að menn eigi einhverja nýtilega uppgötvun. En það liggur ekki fyrir hjer. Í öðrum löndum eru oft veitt verðlaun fyrir nýjar uppgötvanir, sem það eiga skilið, og af þeirri ástæðu er veittur einkarjettur til þess að nota þær. En hafi menn ekki fundið neitt nýtilegt upp, hví á þá að veita þeim einkaleyfi?

Það var alveg rjett á litið af hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að sjeu skilyrði til þess að verka vöruna á þennan hátt, verður það gert alt að einu, hvort sem einkaleyfi er veitt eða ekki. Svo var um vjelþurkun á saltfiskinum. Alþingi þarf ekki að setja nein lög til þessa. Og komi þessi skilyrði á næstu árum, verður það landinu til stórtjóns að veita þetta einkaleyfi.

Jeg mun því, sem að undanförnu, leggjast á móti því, að slík einkaleyfi verði veitt.