30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (1851)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Gísli Sveinsson:

Hv. meiri hl. nefndar þeirrar, sem um þetta mál hefir fjallað, hefir sett hjer fram ýms rök fyrir niðurstöðu sinni. Það er sjálfsagt rjett frá sjónarmiði þeirra manna, sem undir nefndarálitið hafa skrifað, að taka þetta fram, þótt aðrir líti öðruvísi á málið.

Jeg verð að taka undir með hv. frsm. minni hl. (P. Þ.), að meiri hl. hefir ekki farið rjett með, er hann talar um dýrleik Gaulverjabæjar með hjáleigunni Garðhúsum, og svo torfunnar allrar.

Maður hefði síst búist við, að hjer væri farið rangt með, þar sem fyrir liggur nefndarálit Flóaáveitunefndarinnar, sem bæði jeg og hv. frsm. meiri hl. (S. S.) höfum átt þátt að og skrifað undir.

Það er rjett farið með, að Gaulverjabær með Garðhúsum er 43,29 hndr. að dýrleik, en svo segir enn freinur, að öll torfan sje 57,6 hndr. Þetta er ekki rjett, því það, sem heitir Gaulverjabæjartorfan, og Flóaveitunefndin tók upp í álit sitt sem eina heild, er 88,9 hndr. Með öðrum orðum, nefndarálit meiri hl. telur alla torfuna að eins liðugum einum tug hærri að dýrleik heldur en Gaulverjabæ með Garðhúsum, en það er sá hluti Gaulverjabæjartorfunnar, sem um er beðið til kaups, en í raun og veru er öll torfan meira en helmingi dýrari heldur en sá hluti hennar, sem um er beðið. Að hjer er farið með rjett mál má sjá af nefndaráliti Flóaáveitunefndarinnar á bls. 11, í töflu þar.

Hv. frsm. meiri hl. (S. S.) vill víst telja svo, að ekki heyri til torfunni nema hjáleigurnar þrjár, Vaðlakot, Brandshús og Dalbær, en til hennar teljast einnig, svo sem Flóaáveitunefndin greinir, Hellar, eystri og vestri, Haugur og Gerðar.

Í öðru lagi skeikar meiri hl. nefndarinnar, er hann fer að vitna í Flóaáveitulögin og álit nefndar þeirrar, sem það mál hafði með höndum. Í nefndaráliti meiri hl. segir sem sje, að Flóaáveitulögin geri ráð fyrir því, að landssjóður geti eignast jarðir á Hvítáráveitusvæðinu. Þetta er rjett, en svo heldur nefndin áfram og segir, að „það virðist því vera öfug stefna, og fara jafnvel í bága við framkvæmd Flóaáveitulaganna, að selja jarðir á áveitusvæðinu, sem eru eign hins opinbera.“ Þetta er hvorki rjett á litið út frá lögunum, nje heldur út frá skoðunum nefndar þeirrar, sem um málið fjallaði á sínum tíma, og liggur til sýnis hverjum manni í till., sem hún gerði um málið.

Nefndin var sem sje þeirrar skoðunar, að landssjóður ætti ekki að slægjast eftir jörðum á áveitusvæðinu, heldur væri heppilegra, að jarðirnar væru í höndum einstaklinganna, og einstaklingarnir stæðu fyrir áveitufyrirtækjunum, en fengju til þess styrk úr landssjóði. Ef nú svo færi, að jarðirnar samt lentu hjá landssjóði, þá taldi nefndin, að það yrði að vera af því einu, að bændur hefðu ekki nægan kraft til að reka þær, og yrði landssjóður því út úr neyð að taka þær að sjer.

Hvað þetta mál snertir, þá horfir það frá mínu sjónarmiði öðruvísi við en Ólafsvallamálið.

Þótt bæði jeg og margir aðrir álíti, að fylgja beri lögunum um sölu kirkjujarða og þjóðjarða, og þó það hafi verið þess vegna, að meiri hl. háttv. deildar feldi frv. frá stjórninni í fyrra, um frestun á framkvæmdum þeirra, þá var ekki þar með sagt, að ekki væri heimilt að gera undantekningu í máli, sem eins horfði við og Ólafsvallamálið.

Um það mál er það fyrst að segja, að aðferðin, sem var viðhöfð, var í raun og veru tæpast lögunum samkvæm, þar sem tvímælis orkaði, hvort kaupbeiðandi var ábúandi, eða ætlaði sjer alls ekki að vera það áfram, eftir því sem fullyrða má. Í slíku tilfelli hefði það því verið beinlínis á móti anda laganna að selja.

Enn fremur var það næg ástæða til þess að neita sölunni, að jörðin var talin, vafalaust rjettilega, vera ágætt setur fyrir stærri stofnun, sem komið gæti fleiri en einni sveit til góða. Ef reynt yrði að setja á stofn skóla, ekki barnaskóla eða smáskóla, heldur hjeraðsskóla, landsfjórðungsskóla, og ef sá skóli ætti að verða í Árnessýslu, þá væri hvergi álitlegri staður fyrir hann heldur en á Ólafsvöllum. Nú er hvorug þessi meginástæða hjer fyrir hendi, hvað Gaulverjarbæinn snertir; kaupandinn er ungur maður og duglegur, sem hefir gert mikið að því að bæta jörðina, jafnvel svo, að aldrei hefir þar meira verið gert.

Sömuleiðis hygg jeg sönnu næst, að ef landsstjórnin fyndi kvöð hjá sjer til þess að krefja hann um yfirlýsingu í þá átt, að hann ætli sjer að búa á jörðinni og notfæra sjer gæði hennar, þá mundi hann gefa slíka yfirlýsingu þegar í stað.

Skólasetursástæðan kemur ekki heldur hjer til mála, því að jörðin er ekki betur hent slíkum skóla heldur en hver önnur jörð í sýslunni. (S. S.: Hvers vegna ekki?). Hún er sem sje út úr, liggur alveg niður við sjó, en skólajörð þarf helst að vera í miðju hjeraði. Það gæti auðvitað komið til mála að setja þar upp barnaskóla, fyrir þá sveit eina, en fyrir þá ástæðu að eins finst mjer ekki rjett að neita sölunni, enda er jeg líka viss um, að ef kaupandinn yrði spurður að því, hvort hann mundi gefa samþykki sitt til, að slíkur skóli yrði settur á jörðinni, þá er jeg viss um, segi jeg, að hann mundi með fúsu geði gera það og skuldbinda sig til þess.

Það eru því engin sjerstök rök fyrir því, að selja ekki þessa jörð. Auðvitað eru til staðar þessi aðalrök, sem móti eru sölunni, frá sjónarmiði þeirra manna, sem alls ekki vilja selja neina þjóðjörð, en það er ekki nema minni hl. hv. deildar, sem fellst á þær röksemdir.

Önnur þau rök.sem tilfærð hafa verið, eru í raun og veru einkis virði, því sú röksemd, að jörðin geti lent í höndum braskara, er að vissu leyti gullvægur sannleikur, en sá hængur er á, að svo mætti segja um alt, sem selt er. Það þarf ekki að bendla þennan unga mann við slíkt, fremur en aðra góða og gegna menn. (S. S.: Það hefir aldrei verið gert). Það lítur þó svo út, en annars er það ágætt, að það hefir ekki verið gert, því að með því er þá líka braskararöksemdin fallin, hvað þetta mál snertir sjerstaklega.

Jeg er því ekki sammála hv. frsm. meiri hl. (S. S.) um, að það væri „ófyrirgefanlegt glappaskot“, eins og hann komst að orði, að selja jörðina, því ef hún kemst í góðra manna hendur og fult verð fæst fyrir hana — og jeg ætlast til, að mikið verð komi fyrir hana — þá tel jeg það alls ekki illa farið.

Jeg sje því ekki ástæðu til að greiða atkv. með tillögu meiri hl., heldur mun jeg greiða atkv. með því, að vísa málinu til stjórnarinnar, eins og minni hl. leggur til að gert verði.