11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

36. mál, stimpilgjald

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg leyfði mjer að gera nokkrar athugasemdir við frv. þetta þegar það var til 2. umr. hjer í háttv. deild. Háttv. fjárhagsnefnd tók sumt af þeim athugasemdum til greina, en samt hefi jeg komið hjer fram með nokkrar brtt. á þgskj. 322. Flestar þeirra eru að eins til þess að skýra frv., en 1. 4. og 5. brtt. eru efnisbreytingar.

Í sambandi við 1. brtt. skal jeg geta þess, að við 2. umr, sýndi jeg fram á, hve óhæfilega lágt það væri að borga að eins 2% af söluupphæðinni fyrir stimplun, þar sem innheimta á stimpilgjaldinu væri mjög umsvifamikið starf. Launin fyrir þetta eru samkvæmt frv. helmingi minni heldur en fyrir sölu á frímerkjum, en ábyrgðin þó margfalt meiri fyrir þann, sem um stimplunina á að sjá. Jeg gat þess einnig, að lægstu stimpilgjöldin mundu tíðast koma fyrir hjá sparisjóðum og póstafgreiðslum úti um sveitir. Þar mundu umsvifin verða mest, en ágóðinn minstur. Jeg endurtek það, að jeg álít mjög ósanngjarnt að hafa sölulaunin lægri af stimpilmerkjum en frímerkjum.

Hæstv. fjármálaráðherra kannaðist við, að launin væru of lág. Jeg býst því ekki við mótmælum af hálfu stjórnarinnar, og þó að bent hafi verið á það hjer í deildinni, að þetta væri ekki annað en það, sem áður hefði við gengist og því ekki ástæða til þess að fara að breyta því nú, þá er þar til að svara því sama og áður, að ítrekað ranglæti er ekki rjettlæti, heldur aukið ranglæti.

2. brtt. mín er að eins orðabreyting og fer betur en það orðalag, sem er í frv. „Gjafabrjef“ finst mjer ekki geta heimfærst undir sölu fasteigna og skipa. Þess vegna vil jeg hafa „afhendingu“ í stað „sölu“.

3. brtt., við 5. gr., er einnig til skýringar, því að það mætti leggja þann skilning í orðin, eins og þau standa, að með þeim væri átt við alla fjárupphæðina, en ekki verðhæð fasteignarinnar eða skipsins, sem sjálfsagt er þó meiningin.

4. brtt., við 6. gr., er gerð til þess að fyrirbyggja, að byggingarbrjef þjóðjarða og kirkjujarða verði stimpilskyld, nema þau, sem þinglesin eru.

Loks er 5. brtt., við 9. gr., um að fella burt skylduna á valdsmanni um synjun á stimplun, þótt eigi sje greidd þegar í stað, og heimila í staðinn frestun á greiðslunni. Sú regla gildir um aukatekjur, vitagjald o. fl., að óheimilt sje að veita frest á greiðslu. Ættu því að gilda sömu reglur um aukatekjur og stimpilgjald, en til samkomulags er hjer stungið upp á, að þetta sje heimilt undir vissum kringumstæðum.

Jeg legg ekki mikla áherslu á 2. og 3. brtt. mína, en á 1., 4. og 5. brtt. legg jeg svo mikla áherslu, að jeg sje mjer ekki fært að greiða frv. atkvæði ef þær verða allar feldar.