06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

112. mál, gistihússauki í Borgarnesi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það er náttúrlega mjög gaman að því að heyra hv. þm. Barð. (H. K.) bera svo hag landssjóðs fyrir brjósti og vilja forða manninum frá að taka 6.000 kr. lán úr landssjóði. Hann hefir víst líka forðast það fyrir Barðstrendinga. Jeg man nú ekki, hve marga tugi þúsunda hann hefir fengið til bjargráðafyrirtækja Barðastrandarsýslu. (Sv. Ó.: Það eru víst 90.000). Já, það getur verið, að það sje um 90.000 kr., en þá held jeg að hv. þm. Barð. (H. K.) hafi ekki vel athugað þetta, þegar hann vill ekki lána 6.000 kr. til þess að koma upp gistihúsi í Borgarnesi. En jeg hefi þó stutt hv. þm. (H. K.) í málaleitunum hans, því að jeg taldi þær rjettmætar.

En um þennan mann í Borgarnesi er það að segja, að hann hefir tapað á því að hýsa fólk, því þó að hann hafi fengið einhverja peninga fyrir, þá er það ekki veruleg borgun, heldur þóknun fyrir þann kostnað, sem hann hefir lagt á sig. Þetta er ekki heldur gert fyrir Borgarfjörð einan; það er gert fyrir ferðamenn, sem koma langt að, þekkja engan og þurfa að hafa einhvern stað, sem þeir geti hvarflað að, svo að þeir þurfi ekki að liggja úti milli húsa í Borgarnesi.

Þetta mál er ekki skyldara sýslunefnd Mýra- og Borgarfjarðarsýslu en öðrum sýslunefndum á Norður- og Vesturlandi, og það eru bjargráð, að menn, sem koma í Borgarnes og þurfa að bíða þar eftir skipi eða öðrum ferðum, þurfi ekki að liggja úti. Ef hv. þm. (H. K.) gengur það til, að hann er hræddur um, að það verði samkepni milli þess veitingamanns, sem nú er í Borgarnesi, og þess, er um lánið sækir, þá skal jeg geta þess, að það þarf ekki að óttast; sá maður hefir svo lítið húsrúm, að hann mun altaf hafa nóga næturgesti. Svo er um það, að fordæmi skapist. Já, hvaða fordæmi skapast? Það eitt, að hjálpa manninum til að gera við gistihús í Borgarnesi. Hjer er maður í Borgarnesi, með þeim þörfum, sem fylgja því nesi eða stað; fordæmi skapast um það eitt, að auka gistihús í Borgarnesi, af því að ekki er nægilegt húsrými til þess að hýsa það fólk, sem fer þar um að vetrarlagi, og mætti gott þykja, á meðan landið þarf ekki að gera annað. Annars vona jeg, að hv. þm. (H. K.), sem er minnisgóður, muni eftir því, að Alþingi sá sjer ekki annað fært en að styrkja að því, að í Fornahvammi væri til gistihús, sem gestir gætu flúið í, og það er ekki svo miklu betra að liggja úti í Borgarnesi en í daladrögunum hjá Fornahvammi, að það geri nokkurn mun, og um fjárhag landssjóðs hygg jeg það, að hann versni ekki, svo að nokkru muni, fyrir þessa sök. Annars er þetta svo óskiljanlegt og út í loftið talað, að furðu gegnir.. En jeg mun nú ekki hirða um að þvæla. þetta mál frekar en orðið er, og svo hygg jeg líka, að umsækjandinn standi; jafnrjettur, hvort hann hættir að hýsa fólk eða ekki, en af því að hann er gestrisinn, þá hygg jeg, að hann muni ekki hætta að láta menn njóta góðvildar sinnar, en af eigin spýtum getur hann ekki stækkað hús sitt, nema þá að hann njóti að góðviljaðs lánveitanda.

Hv. þm. (H. K.) talaði um sýslunefndina; jeg veit ekki hvort hann hefir átt við, að hún ætti að lána manninum þetta fje, en hvað lánveitinguna snertir, þá sje jeg ekki, að neitt væri eðlilegra, að sýslan lánaði honum þetta, en að Barðastrandarsýsla hefði lánað Bíldudal fjé til rafveitunnar.

Jeg ætla nú að láta menn ráða, hvað þeir gera við þetta mál; jeg get sem sagt ekki skoðað þetta neina tilraun til þess að bæta hag mannsins, heldur til þess að gera honum hægra að stækka húsið, sem hann getur ekki af eigin ramleik. Annars munu aðrir hv. þm., sem um staðinn fara, vera þessu kunnugri en jeg, því jeg þarf ekki að leita húsrúms í Borgarnesi, þegar jeg kem þangað, því að jeg á þar marga gististaði.