08.07.1918
Neðri deild: 65. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

114. mál, laun tveggja kennara Flensborgarskólans

Magnús Pjetursson:

Jeg vil að eins gera stutta athugasemd, þar sem það hefir komið hjer til mála að vísa þessari till. til fjárveitinganefndar. Jeg vil þá leyfa mjer að skýra frá því, að þessi till. hefir þegar legið fyrir nefndinni. Brjef það, sem um er að ræða, var sent heim til nefndarinnar, en hún sá sjer ekki fært að taka tillit til þess, að svo komnu, og sendi það því til stjórnarráðsins.

Auðvitað hefir stjórnin alveg töglin og hagldirnar gagnvart þessum skóla, því hún ræður alveg, hvort skólar skuli starfa eða ekki, og er ráðgert, að borga skuli kennurum, þó skólarnir leggi niður starf sitt. Þetta liggur nú fyrir stjórninni, svo jeg veit ekki, hvort fjárveitingarnefnd getur nokkuð meira gert við þetta, nema komi sjerstakar tilk. um það frá stjórninni.