10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (2058)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi ekkert á móti því, að málið sje tekið út af dagskrá eftir ósk nefndarinnar, svo sem venja hefir verið um önnur mál. En jeg kann því illa, verði málið tekið út af dagskrá í þeim tilgangi að láta það aldrei koma fram aftur. Ef frv. þetta er til verulegra bóta frá því sem nú er, þá á það ekki að verða því til tafar eða að falli, þó einhver, sem um það á að fjalla, sje á einhvern hátt ósamþykkur bæjarstjórn í einhverju máli. Vona jeg, að hæstv. forseti komi í veg fyrir það. Jeg segi þetta af þeirri ástæðu, að mjer er kunnugt um, að þessi hugsun er nokkuð ofarlega í hv. nefnd.