28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (2154)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg skal ekki vera langorður, en jeg vil lofa því fyrir hönd nefndarinnar að taka það til athugunar til 3. umr., sem hæstv. forsætisráðherra mintist á.

Jeg verð að minnast á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.) og jeg gleymdi að minnast á áðan. Hann tók það fram, að forstöðumenn skólanna, sem landssjóður kostaði, hefðu fría íbúð. Þetta er rjett að vísu, en þó mun það ekki vera ákveðið með lögum um skólastjóra mentaskólans, en jeg ímynda mjer, að hann hafi nú samt þessi fríðindi. En þá er að taka tillit til þess, að þessi skólastjóri t. d. hefir ekki hærri laun en sumir aðrir kennarar; t. d. hefir Þorleifur Bjarnason með dýrtíðaruppbótinni ekki lægri laun en skólastjórinn. Mismunurinn, eða það, sem skólastjórinn hefir fram yfir þennan kennara, liggur þá aðallega í þeim fríðindum, sem hann hefir, og jeg get ekki sjeð, að sá munur sje neitt ýkjamikill. Annars er það mjög óviðfeldið, að menn skuli vera að rífast út af því, að forstöðumenn stofnana skuli hafa meiri laun heldur en aðrir starfsmenn sömu stofnunar. Jeg vil að eins benda þessum mönnum á daglega lífið og hvernig því er þar varið. Hvenær fær hásetinn t. d. meira en skipstjórinn? Jeg veit aftur á móti þess dæmi, að skipstjórarnir á sumum botnvörpungunum okkar hafa fengið helmingi hærra kaup en öll skipshöfnin til samans. Og það er ekki nema ofureðlilegt, að sá, sem ber ábyrgðina, hafi meira kaup heldur en sá, sem ekki ber þá þungu byrði. Þetta vildi jeg ekki láta hjá líða að taka fram.

Enn fremur vil jeg lýsa yfir því, að nefndin er reiðubúin til þess að athuga til 3. umr. allar sanngjarnar breytingar, sem vita til bóta, ef frv. verður ekki felt nú þegar.

Þá vil jeg snúa mjer með örfáum orðum að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann sagði að jeg hefði verið samdóma sjer í þessu máli. Þetta hlýtur að vera mjög elskulegur misskilningur. Fyrst og fremst er jeg ekki vanur að vera oft á sama máli og hv. þm. (Sv. Ó.), því okkar skoðanir eru yfirleitt svo frábrugðnar. Þá bar hann mjer það á brýn, að jeg hefði sagt sjer ýmislegt til hnjóðs í ræðu minni, en það var ekki, því jeg lofaði hann miklu fremur. Jeg held, að honum fari því nú eins og drotningu Haralds harðráða, sem ekki kunni að meta vísur þær, sem Grautar-Halli orti um hana og í verunni voru mjög mikið lof.

Með þessum orðum er hv. þm. Borgf. (P. O.) einnig svarað, enda var það óþarfi fyrir hann að fara að hlaupa undir baggann með hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), því jeg get ekki trúað öðru en að hann hafi verið einfær um að svara fyrir sig. En það er langt frá því, að jeg hafi viljað ausa skömmum yfir hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Jeg sagði að eins, að þó þetta og þetta væri nú ekki svona og svona, þá liti þó samt svo út, en um leið sagði jeg, að það væri hafið yfir allan vafa. Við getum því verið fullkomlega sáttir, en þó svo sje, þá get jeg ekki fallist á till. hans, því þær eru jafnómögulegar eftir sem áður, því það er jeg búinn að margbenda hv. þm. (Sv. Ó.) á, að ef þær verða samþyktar, þá verður uppbótin til sumra embættismanna ekki nein. Jeg vonast því til þess, að hann falli frá þeim og taki þær aftur. Jeg nenni ekki að fara í aurkast við hv. þm. Borgf. (P. O.), því hann bar mjer það á brýn, sem mjer hefir aldrei dottið í hug.