28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (2155)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer mikið inn í umr. þær, sem orðið hafa um málið, að þessu sinni. Það var að eins skoðun sú, er mjer virtist koma fram í ræðu hv. þm. S.-P. (P. J.), sem kom mjer til að biðja um orðið. Hann virtist slá því fram, og slá því nokkuð föstu, að líkur væru til þess, að sýslumenn fengju nokkurn tekjuauka af umsjón með vörum landsverslunarinnar. Með því að mjer er ekki kunnugt um, hvernig þetta má verða, þá vildi jeg leyfa mjer að biðja hann, sem framsögumann nefndarinnar, um upplýsingar viðvíkjandi þessu atriði. Mig minnir, að það atriði hafi verið til umr. hjer í deildinni, hvort vörur landsverslunarinnar skyldu ganga í gegnum greipar sýslumanna að meira eða minna leyti eða ekki, og mig minnir, að þá hafi það verið ákveðið að láta forstjóra landsverslunarinnar sem mest um það, hvernig hjer skyldi með farið.

Þegar um það var rætt hjer í hv. deild, hvort vörur landsverslunarinnar skyldu fara að meira eða minna leyti í gegnum hendur sýslumanna eða ekki, þá fullyrði jeg, að meiri hl. hjer í hv. deild leit svo á, að svo skyldi ekki vera. Það kom þá beint fram, að þó forstöðumenn landsverslunarinnar yrðu í hverju einstöku tilfelli að ráða því, við hverja þeir ættu með borgun á vörunum, þá var lögð áhersla á það, að þeir hefðu sem allra fæsta milliliði milli landsverslunarinnar og notenda. Það virðist því alleinkennilegt, að nú sje gert ráð fyrir því, að stjórnin geti ákveðið tekjur, er sýslumenn fái af landsversluninni. Satt að segja held jeg, að vörur landsverslunarinnar sjeu ærið dýrar samt, þó ekki verði farið að leggja á þær launabætur til sýslumanna.

Þessi skoðun er óhrakin enn. En eftir því, sem kom fram hjá þessum hv. þm. (P. J.), sem veit vel hvað hann segir, þá skýtur þessu nokkuð öðruvísi við en nefndin gengur út frá. Það eru ekki aðrir en forstöðumenn landsverslunarinnar, sem hafa nokkuð að segja um það, hvort sýslumenn hafa nokkra milligöngu með úthlutunina. Í samanburði við aðra starfsmenn landsins finst mjer að hv. fjárveitinganefnd hefði átt að leggja til að bæta upp laun sýslumanna á annan hátt en að gera ráð fyrir, að þeir hefðu tekjur af vörum landsverslunarinnar. Enda er varla rjett að gera ráð fyrir öðru en að vörurnar gangi til notenda með sem minstum áföllum og milliliðum.

Mjer finst, að vel megi taka það til athugunar, hvort ekki eigi að taka sýslumennina með í þessu frv. Mjer finst, að hjer sje orðin allveruleg endurskoðun á launalöggjöfinni, þó þessi stjett og prestastjettin hafi verið skilin eftir. — Að öðru leyti skal jeg ekki blanda mjer í þær orðahnippingar, eða þann skoðanamun, sem hjer á sjer stað um þetta mál, að þessu sinni.