02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (2177)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Magnús Pjetursson:

Jeg skaut fram í gærkveldi brtt.,er jeg sá, að málið myndi ekki lúkast þá, til þess að bæta úr kjörum póstmannanna. Jeg segi „bæta úr“ vegna þess, að jeg er sannfærður um, að brtt. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) nær ekki fram að ganga, en ef svo væri, að meiri hl. þm. vildi samþykkja hana, þá geta þeir það eins fyrir því, þótt þessi brtt. sje fram komin.

En að jeg fór svo langt niður, eða niður í 8.000 kr., er af því, að jeg byggi till. á nokkuð öðrum grundvelli en hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) byggir sína. Hv. þm. (J. B.) ætlast sem sje til, að uppbótin verði 25% og nái til allra starfsmanna póstmálanna. En jeg geri ráð fyrir, að hún nái ekki til allra, heldur einungis til þeirra, er helst þurfa. (J. B.: Það geri jeg líka). Og ef gengið er út frá því, þá álít jeg, að 8.000 kr. muni hjálpa mikið. Jeg geri ekki ráð fyrir, að póstafgreiðslumenn þeir, er fengu ef til vill alt að 30% launahækkun á síðasta þingi, ætlist aftur til launabótar á þessu þingi. Eins verð jeg að segja, að jeg hafði ekki gert ráð fyrir því, að brjefhirðingarmenn, sem aldrei hafa fengið borgun, svo neinu nemi, fyrir það starf, yrðu þessarar uppbótar aðnjótandi. Og ef bæta ætti þeim upp svo, að það gætu talist nokkur borgun, þyrfti að ætla þeim miklu meira en 25%. Hvaða borgun getur það t. d. heitið, þótt brjefhirðingarmaður, sem hefir 20 kr. þóknun, fengi 25%, eða 5 kr. í viðbót, og hefði þá alls 25 kr.? Menn leysa þetta starf alment af hendi eins og smáskyldustarf, sem ekki taki að krefjast fullrar borgunar fyrir, og sje jeg ekki, að mögulegt sje fyrir þingið að kippa þessu í lag, því að enginn vafi er á því, að ef nú á að byrja að launa þessum mönnum svo, að sæmilegt sje, þá þýðir ekki að nefna 15 þús., heldur mætti þá sennilega fara upp undir 100 þús. kr. hækkun til póstmálanna.

Jeg læt mjer nú í ljettu rúmi liggja, hvort till. mín eða hv. þm. S.-Þ. (P. J.) verður samþykt. það er sama hvor er, og við vissum ekki hvor af öðrum er við bárum þær fram. Jeg býst sem sagt við, að önnurhvor þeirra verði samþykt. En þetta vil jeg leggja áherslu á, að ef till. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) verður ekki samþ., þá sjái póstmeistari um, að uppbótin komi niður þar, sem hennar er mest þörf, en ekki hjá öllum póstmönnum yfirleitt

Úr því að jeg stóð upp, þá vildi jeg minnast á það, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var að tala til mín í gær. Jeg tók nú ekki vel eftir því, sem hann sagði, en hann var víst eitthvað að fetta fingur út í það, að jeg hafði á móti þeirri stefnu hans í launamálum. Það hefir verið misskilningur hans, sem kom fram í því, að hann vildi láta launa embættismenn landsins þannig, að ætlast væri til, að þeir hefðu einnig aðra atvinnu — naumast vísvitandi misskilningur, heldur misskilningur bygður á skilningsleysi — að jeg vildi banna mönnum þeim, er starfsþrek og starfslöngun hafa, að fást við störf utan síns embættis. Það var ekki meining mín, heldur hitt, að jeg vildi ekki binda menn með lögum til þess að leita sjer aukastarfa. En jeg kalla menn bundna til þess með lögum, ef þeim eru svo illa launuð störf sín í landsins þarfir, að þeir neyðist til að leita sjer aukaatvinnu til að geta lifað.

Enn fremur var sami hv. þm. (Sv. Ó.) að nefna dæmi þess, að ýmsir þarfir og þjóðnýtir menn hefðu afkastað miklu utan embættis síns. Nefndi hann til Hallgrím Pjetursson. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir þá hugmynd, að hann hafi með kveðskap sínum verið að reka atvinnu til þess að geta lifað. Kann ske hann ímyndi sjer, að hann hafi verið að skrifa undan prentsmiðjunni! Svo verð jeg nú að segja það, að þótt t. d. prestar gefi út guðfræðibækur og prjedikanir og yrki sálma, þá er það að, mínu viti, ekki utan starfssviðs þeirra, heldur í því.

Hefi jeg svo ekki ástæðu til að segja fleira, en vildi að eins drepa á þetta skilningsleysi hv. þm. (Sv. Ó.).