18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal taka það fram, að mjer dettur ekki í hug að fara að svara fyrirspurninni. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. atvinnumálaráðherra sje við því búinn að svara henni. En jeg vildi drepa á eitt atriði í ræðu hv. fyrirspyrjanda (G. Sv.), af því að hann fór þar ekki með rjett mál. Hann sagði, að flokkabrot í þinginu hefðu tilnefnt sinn manninn hvert. Jeg verð að mótmæla þessu fyrir hönd þess flokks, sem jeg heyri til, heimastjórnarflokksins. Hann hefir ekki tilnefnt neinn mann í fossanefndina, og afsalaði sjer öllum afskiftum af skipun hennar, þegar þetta kom til tals í þinginu í fyrra.

Það var skilyrði frá tveimur þingflokkunum, að þeir hefðu rjett til að nefna menn í nefndina, og heimastjórnarflokkurinn hafði auðvitað líka þennan rjett, en hann notaði hann ekki (P. J.: Hann mótmælti þessu). (S. St.: Já, margir flokksmanna). (B. J.: Heyr sannleiksvitnið).

Þetta þótti mjér ástæða til að leiðrjetta, þótt það vitanlega hafi enga þýðingu fyrir fyrirspurnina, eins og hún liggur fyrir. Enn fremur tel jeg rjett að láta þess getið, þar sem hv. fyrirspyrjandi (G. Sv.) var að tala um skyldleika eins nefndarmannsins við einn ráðherranna, að það var ekki það, sem rjeði valinu, en þegar um fleiri menn var að ræða, var hann tekinn fram yfir, af því að hann var lögfræðingur.

Frekara skal jeg svo ekki fara út í þetta mál.