18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Fyrirspyrjandi (Gísli Sveinsson):

Jeg hefði óskað þess, ef fleiri ætluðu að taka til máls, svo sem einhverjir úr fossanefndinni, að geyma svör mín þar til á eftir.

Jeg skal að eins út af þessum „svörum“, sem fram hafa komið, láta það í ljós, sem menn sjálfsagt hafa þegar sagt sjer sjálfir, að fyrirspurninni er alls ekki svarað. Það hefir ekkert svar komið í þá átt, er við hefði mátt búast. Má vel vera, að hæstv. stjórn sje ekki fær um að svara meiru þar til, með því að nefndin sjálf hefir ekkert svar gefið. Það hefir nú komið fram, þótt ótrúlegt sje, að nefndin hefir ekki látið neitt uppi um störf sín, ekki einu sinni þau 2 atriði, sem hún sjerstaklega átti fyrst að leysa úr.

Eftir því, sem hæstv. atvinnumálaráðherra gaf til kynna í því, er hann las upp úr brjefi nefndarinnar, þá færir nefndin það til og ber fyrir sig, að þing hafi komið saman fyr en við var búist. En nú er mjer spurn: Hver hefir sagt nefndinni, hve nær þing yrði kallað saman? Hún vissi, eða mátti vita, að þingið yrði kallað saman á næsta ári, 1918, en hitt ekki, hvort það yrði í byrjun árs, um mitt ár eða síðar. Það var tekið fram og öllum vitanlegt, að það gæti að borið hve nær sem væri. þess vegna átti nefndin að hafa vakandi auga á þessum atriðum tveimur og rannsaka þau eftir megni meðan tími vanst, frá því í haust og til nýárs, frá nýári og fram í apríl. En nú hefir nefndin ekki gert þetta, og verð jeg að segja, að traust mitt á þessari nefnd í heild sinni, eins og hún er skipuð, hefir ekki vaxið við þetta.

Nefndin telur í „svari“ sínu ekki fært að ljúka rannsókn á einstökum atriðum málsins, því að ítarleg rannsókn á undirstöðuatriðum þess verði áður fram að fara. Með öðrum orðum: Það er ekki von á neinu svari frá nefndinni fyr en hún er komin að rökstuddu áliti um alt málið. Og ef það er svo ætlunin, að nefndin sitji á rökstólum svo árum skiftir og fari í ferðalag út um lönd, þá getur orðið langt að bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar, sem átti að vera búin fyrir næsta þing, þ. e. þetta þing.

Annars er ekki ástæða til að taka fleira fram viðvíkjandi þessu, sem nefndin hefir látið uppi, og skal jeg þá snúa mjer að nokkrum atriðum í ræðum hæstvirtra ráðherra. það var víst hæstv. forsætisráðherra, sem tók það fram, að hann ætlaði ekki að svara fyrirspurninni, en vildi upplýsa það, að hans flokkur, Heimastjórnarflokkurinn, hefði ekki beint tilnefnt eða skipað mann af sinni hálfu í nefndina. Mjer var kunnugt um, að andróður var allmikill í Heimastjórnarflokknum móti þessari stefnu, og þykir mjer rjett trúlegt, að sú andstaða hafi orðið þar svo mikil, að þetta hafi ekki verið gert beint af flokksins hálfu. En svo fór þó, að einn af þingmönnum Heimastjórnarflokksins lenti í nefndinni, maður, sem margt gott má að vísu um segja, en þó gildir um hið sama og flesta aðra nefndarmenn, að ekki verður sjeð, hvað hann átti í nefndina að gera. Hann er auk þess trúnaðarstörfum hlaðinn, bæði í ábyrgðarmiklu embætti, og auk þess í nefndum, sem lengi hafa setið, og sitja enn, en þó ókunnugt um, hvað hafa afrekað. Þetta gaf til kynna, að sama regla hefði orðið ofan á í Heimastjórnarflokknum og hinum, að einn þingmaður hefði verið tekinn úr honum í nefndina, þótt ekki væri til annars en að vega upp á móti þeim mönnum, sem hin flokkabrotin höfðu ætlað sjer að koma í nefndina.

Þá kem jeg að hæstv. atvinnumálaráðherra. Hann skýrði frá því, fyrir hönd síns flokks, að engin skilyrði hefðu verið sett af þess flokks hálfu, og hann enga skipun fengið frá honum í þessu efni. Það hefir nú áður verið talað um ýms skilyrði, sem þessum hæstv. ráðherra hafi verið sett af flokksins hendi, og er því játað og neitað á víxl, svo ekki verður vitað, hvað ábyggilegt er í því. En verið getur, að í þetta sinn hafi hann að eins fengið frá flokknum hóflega áskorun, en ekki beint hótun, um að verða sendur norður — ekki niður — ef hann hlýddi ekki, eins og sagt er að gerst hafi í öðru alþektu máli. En víst er um það, að þess tjáir eigi að dyljast, að þegar þingsályktunin var samþykt, þá var það öllum lýðum ljóst og alkunnugt, hvaða menn þessi flokkabrot höfðu ætlað sjer að koma í nefndina, og þegar til kom, voru í nefndina skipaðir einmitt sömu mennirnir. Jeg fyrir mitt leyti vissi það upp á hár, að þessir menn áttu það að verða, og þess vegna sló jeg með fleirum þann varnagla, að stjórnin ætti að vera óbundin og einráð í þessu máli.

En jafnframt því, sem hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að hann gæti ekki að öðru leyti svarað fyrirspurninni, þá viðurkendi hann, að það væri eitt af því ískyggilega, ef nefndin skyldi ætla sjer að sitja á rökstólum í fleiri ár. En nú kem jeg að annari hlið á þessu máli, og það eru eftirköstin. Hv. þingdeild hefir nú fengið að vita, að nefndin hefir ekkert komið fram með. En þá er mjer líka spurn: Er ekkert hægt að gera? Getur landsstjórnin ekkert gert til þess að flýta fyrir og herða á nefndinni? Nú vil jeg, að hún hjálpi nefndinni til að vinna að þessu velferðarmáli. Vil jeg því fyrir mitt leyti gera það að till. minni, að málinu verði að umræðum loknum vísað til stjórnarinnar, þar sem jeg skil svo 41. gr. þingskapanna, að með því, að hjer er um fyrirspurn að ræða, megi ekki gera beina ályktun. Vil jeg því einfaldlega vísa málinu til stjórnarinnar, og þau rök, sem fylgja tillögu minni, stjórninni til leiðbeiningar eru:

1. Stjórnin sjái um, að fossanefndin afgreiði á næstunni rökstudda niðurstöðu um 1. og 4. lið þingsályktunarinnar frá 15. sept. f. á.

2. Stjórnin sjái um, að nefndin forðist óþarfa ferðalög og kostnað.

3. Stjórnin sjái um, að nefndarmenn fái vinnu sína vel borgaða, en þó ekki nema hæfilegt kaup.

Með þessum röksemdum hefi jeg þá gert mína tillögu.