08.05.1918
Neðri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Frsm. (Einar Arnórsson):

Eins og sjeð verður á nál. á þgskj. 37, hefir allsherjarnefnd ekki getað ráðið til þess, að frv. á þgskj. 14 nái fram að ganga, með því innihaldi, sem það hafði, er það var lagt fram. Aðalástæðurnar eru taldar upp í nefndarálitinu, og er þá fyrst það, að með samþykt frv. er gengið á rjett sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, og engar upplýsingar liggja fyrir um það, hve mikla uppbót hann mundi gera sig ánægðan með, ef frv. þetta yrði samþykt. Þess vegna hefir nefndin lagt það til, að máli þessu sje vísað til stjórnarinnar.

En síðan nefndarálit þetta var samið og undirskrifað hafa háttv. flutningsmenn frv. borið fram breytingartillögur við það, og eru þær á þgskj. 71. Verði þær brtt. samþyktar, er aðal agnúinn sniðinn af frumvarpinu, sem sje sá, að sýslumaður Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri geti haft nokkuð á móti því, því að ef brtt. verða samþyktar og síðan frv., með þeim breytingum, þá eru í engu skert laun hans, að því er kemur til þeirra tekna, er hann hefir haft af Siglufirði. Þvert á móti er hagur hans heldur bættur; hann hefir minna að gera, þar sem hann losnar við almenn lögreglumál á Siglufirði. Hins vegar fær hann sinn hluta af tekjum þaðan, eins og áður.

Allsherjarnefnd hefir, eftir atvikum, getað sætt sig við, að frv. verði samþykt með þessum breytingum. Þó er þess að geta, að frumvarpið þarf frekari lagfæringa í formsatriðum, sem leiða af samþykt brtt, og enn fremur hefir nefndin ákveðið að koma með brtt. við frv., eins og það væntanlega yrði þá, við 3. umr.

Aðalbreytingin eftir frv., þannig breyttu, yrði sú, að Siglufjörður yrði sjerstakt sýslufjelag eða kaupstaður, sem hefir sín fjármál aðskilin, eins og sjerstakur kaupstaður. Í stað hreppstjóra kemur lögreglustjóri, sem hefir dómsvald, en þó að eins takmarkað í almennum lögreglumálum. Hann er oddviti bæjarstjórnar Siglufjarðar og hefir á hendi almennar fjárheimtur og lögreglustjórn, og ætti að innheimta skipagjöld og tolla og gegna öðrum störfum, er hreppstjóri hefir áður haft, gegn þóknun eftir sömu reglum og hreppstjórum er ákveðið í lögum. Sýslumaðurinn mundi því losna við almenn lögreglumál, lögreglustjórn Siglufjarðar og sýslumálefni, að því leyti er tekur til Siglufjarðar.

Slíkt fyrirkomulag sem þetta þekkist að vísu ekki hjer á landi sem stendur, en ekki virðist það neitt fráfælandi, og sýnist vel mega vera. En allsherjarnefnd veit ekki, hvort Siglfirðingar muni gera sig ánægða með þetta. Nefndin hefir hvorki sjeð símskeyti nje annað frá þeim um þessar breytingar. En álit sýslunefndar gekk út á það, sem farið var fram á í frv. upphaflega.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í málið. Allsherjarnefndin hefir hugsað sjer að leggja það til, að frv. sje samþykt með þessum brtt., en þó með þeim fyrirvara, að hún áskilur sjer að koma með brtt. við 3. umr. og gerir ráð fyrir frekari formbreytingum, er leiða af samþykt brtt. Og loks áskilur hún sjer að fá að vita, hvort Siglfirðingar muni gera sig ánægða með það, sem farið er fram á í brtt.