12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Gísli Sveinsson:

Jeg skal ekki lengja umr. að mun, enda hefi jeg gert grein fyrir atkvæði mínu, er málið var hjer til umr. áður í háttv. deild.

Jeg hefi verið dálítið hissa á gangi málsins frá upphafi, ekki alls kostar yfir því, að frv. kom fram, heldur af hinu, hvernig tekið hefir verið í það af mönnum. Jeg hefi sem sje sjeð, að þeir hv. þm., sem telja sig mestu sparsemdarmennina á fje landssjóðs, þeir hinir sömu hafa gengist fyrir þessu frv. og verið því samþykkir. Þessi framkoma þeirra fær mig til þess að álíta, að þessir háttv. þm. sjeu nú komnir að þeirri niðurstöðu, að embættismenn eigi eftirlaunin skilið og að yfirleitt eigi svo að breyta við þá, sem hjer er gert.

Brtt. háttv. Ed. eru að vissu leyti til bóta, en að sumu leyti líka algerlega út í hött.

Það er breyting til bóta, að fyrirsögninni skuli hafa verið breytt, því að nú sjest það, sem er, að þetta eru sjerstök lög um eftirlaun handa þessum eina manni, en ekki breyting á bankalögunum, eins og það var áður orðað. En það skil jeg aftur ekki, hvernig háttv. allsherjarnefnd Ed. hefir komist að þeirri niðurstöðu, að setja þetta tímatakmark 1. júlí 1918, því að nú er því lýst yfir, að þetta skuli að eins vera ákvæði um það, að frá þessum tíma skuli þessi maður hafa rjett til eftirlaunanna. En aftur á móti hefi jeg heyrt því haldið fram af sumum háttv. þm. Ed., að með þessu væri verið að binda það fast, að bankastjórinn yrði að segja af sjer 1. júlí, og þessi skilningur hefir eitthvert vit í sjer, ef menn vilja binda eftirlaunin við einhvern slíkan vissan tíma.

Það hefir flogið fyrir orðasveimur um það, að sumir flutningsmenn þessa frv. og stuðningsmenn bæru það aðallega fram til þess að kaupa þennan mann út úr bankanum. Jeg skal ekkert um það segja, hversu mikið er hæft í þessum orðrómi, en eftir allan þennan rekstur fer jeg að halda, að eitthvað geti verið til í því, að þessir menn ætli sjer og hafi ætlað sjer að kaupa bankastjórann til þess að fara brott, á tilsettum degi, úr bankanum.

Hvað svo sem minni afstöðu til þessa manns liður og skoðunum okkar fyr og síðar, þá hefi jeg ekki sjeð ástæðu til að setja lög um það, hve nær hann skuli fara, því að það er verk landsstjórnarinnar einnar, í samráði við hann, eða að honum nauðugum. Annaðhvort er því að samþykkja enga tímaákvörðun og hafa frv. eins og það fór hjeðan úr deildinni, eða þá að samþykkja engin lög um eftirlaun handa manni þessum, og mun jeg fara því fram.