16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf ekki að segja margt. Háttv. ræðumenn hafa skýrt málið svo mjög, hvor frá sinni hlið.

Jeg vil að eins leggja frekari áherslu á þá skoðun nefndarinnar, sem kemur fram í brtt. hennar, að henni fanst hart, ef bæjarstjórnir fengju engu að ráða um undanþáguna.

Þess vegna leggur hún til, að bæjarstjórnir segi til í hvert sinn, eftir því sem til hagar, og fái síðan samþykki stjórnarráðsins.

Þá hefir löggjafinn ekki heldur lagt neinn dóm á þetta atriði.

Þá vil jeg geta þess, að nefndinni hefir borist brjef frá nefnd, sem skipuð er af Kaupmannafjelagi Reykjavíkur og verslunarmannafjelaginu „Merkúr“. Þar segir svo: „Þótt viðunandi sje, að undanþága verði gerð á reglugerðinni, þá finst oss það fráleitt, að slík undanþága verði fyrirskipuð með lögum“.

Þá vil jeg benda á, að lög þessi eru ekki að eins vegna stjettar þeirrar, sem í hlut á, heldur vegna kaupendanna líka.

Og jeg lít svo á, að rjett sje að selja mönnum sælgæti á kvöldin, ef það skyldi verða til þess, að þeir nytu síður annars, sem skaðlegra er. En þótt sumir geti ekki neytt þeirrar vöru, sem þeim er mest ánægja að, þá ættu þeir þó ekki að meina öðrum það, þegar um saklaust sælgæti er að ræða.

Líka mætti benda á það, að flestar sælgætisbúðir opna seint á morgnana, og er það enn ein ástæða til að leyfa þeim að hafa lengur opið á kvöldin.