20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að segja það, að mjer þykir háttv. fjárveitinganefnd nú nokkuð rif á stykkjunum, eftir því sem venja hefir verið til með fjárframlög til þeirra vega, sem viðhaldið hvílir ekki beinlínis á landssjóði. Eins og kunnugt er, hvílir skyldan um viðhald flutningabrauta á sýslufjelögum landsins. Það hefir verið reynt að breyta þessu þannig, að landssjóður taki að sjer þetta viðhald, en það hefir ekki tekist enn.

Jeg fyrir mitt leyti tel það nú sjálfsagt og sanngjarnt, að landssjóður hafi viðhaldið á hendi, en þar sem það hefir enn ekki komist á, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, þá finst mjer óþarft og órjett að taka út úr þessa braut, er hjer um ræðir, eða aðrar einstakar brautir, og láta landssjóð kosta þar viðhald, því að með því er öðrum sýslufjelögum, sem eins stendur á um, gert rangt til.

Mjer þykir þetta því óviðkunnanlegt. Raunar kvað vegamálastjóri hafa látið það uppi, að þessi brú, Ölfusárbrúin, hafi verið illa gerð í upphafi, og þurfi því meira viðhald en aðrar brýr, og sje því hjer öðru máli að gegna. Hið sama mundi nú mega segja um fleiri brýr, að þær sjeu ekki svo vel gerðar sem skyldi, svo að þetta er ekkert einsdæmi.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, er jeg því eindregið fylgjandi, að landssjóður taki að sjer alt viðhaldið, en meðan það skipulag er ekki á komið, sje jeg ekki, að rjett sje að taka einstaka liði út úr. Annars kvað vegamálastjórinn vera að rannsaka og undirbúa þetta mál, og mundi mega vænta þess, að álit hans yrði tilbúið fyrir næsta reglulegt þing.