13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

32. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get að nokkru leyti tekið undir með hv. frsm. (J. B ) um það, að maður verði að sætta sig við niðurstöðu háttv. nefndar, með því að ekki munu fást samþykt á þessu þingi lög um laun kennara.

Mjer virðist samt, að hv. nefnd hefði vel getað tekið öðruvísi í frv. stjórnarinnar, ef hún, sem jeg hygg, telur það í rauninni á rjettum grundvelli bygt, því að þótt hún hefði talið efasamt, hvort það ætti að koma í framkvæmd nú, þá mátti vel taka upp í það ákvæði um frestun á framkvæmd.

Aðalorsökin til þess, að barnafræðslan er ekki svo góð, sem hún ætti að vera, hygg jeg vera þá, að kennurunum yfirleitt eru ekki boðin þau kjör, að hæfir menn fáist til þess að binda sig og framtíð sína við starfið. Jeg veit, að hjer eiga sjer stað undantekningar.

Jeg býst við, eftir þeirri þekkingu, sem jeg hefi á þessum málum, að barnafræðslunni verði ekki breytt í grundvallaratriðunum, en skólahjeruðunum á sjálfsagt að breyta, fækka þeim eftir megni o. s. fr.

Það er ekki rjett, þvert á móti betri vitund, að segja við kennara: „Við getum ekki farið að búa til embætti handa ykkur, fyr en við vitum, hvernig fræðslukerfinu verði hagað“, því að það vita allir, að við höfum ekki efni á að hafa skólaskyldu á öðrum aldri en á barnsaldrinum. Menn verða að fara að vinna svo ungir, að ekki er hugsanlegt að leggja skólaskyldu á alla á aldrinum 16—20 ára. Skipun á högum barnakennara þarf því ekki að bíða eftir breytingum á fræðslufyrirkomulaginu í heild.

Annars held jeg, að það sje miklu rjettara að hafa skólana sem fæsta, en að launa svo vel kennurunum við þá, að hæfir menn fáist til þeirra. Skal jeg að eins nefna í þessu sambandi, að það væri miklu betra að hafa einn búnaðarháskóla á öllu landinu, og hann verulega góðan, heldur en að hafa þrjá, eins og nú er, og engan verulega vísindalegan.

Og jeg tel, að það væri betra að hafa einn verulega góðan lýðskóla í hverjum fjórðungi heldur en að hafa einhverja lýðskólamynd í hverri sýslu.

Af því að fræðslan í landinu hefir verið sett í samband við þetta launamál, þá vil jeg að eins segja lauslega frá skoðun minni á því máli, og hún er sú, að menn mega ekki búast við verulegum grundvallarbreytingum á fræðslulögunum, að öðru leyti en því, hvað búast má við, að kenslutíminn í skólunum verði lengdur, að skólarnir verði sem fæstir, en þá um leið góðir, og eftirlitið verði nákvæmara með kenslunni heldur en það hefir verið.

En aðalatriðið verður altaf góðir kennarar, góðir kennarar og góðir kennarar, og fyrsta skilyrðið fyrir því er að launa kensluna svo vel, að kennararnir geri hana að lífsstarfi, en hafi hana ekki sem íhlaupaverk. En yfirleitt mun því vera svo farið, að utan kaupstaðanna sje kenslunni allvíða ábótavant, því að þótt einhver fáist, sem er vel hæfur, þá er hann farinn, ef honum er boðin sæmileg staða. Og yfirleitt er ástandið orðið svo, að allir, sem geta, þyrpast úr þjónustu hins opinbera, vegna þess, hversu landið borgar illa þjónustuliði sínu.