13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

32. mál, fræðsla barna

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið.

Að eins vildi jeg gera grein fyrir því, hvers vegna jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara.

Eins og kunnugt er, hefir mál þetta verið til athugunar í mentamálanefnd, og var það afgreitt, eða rjettara sagt, nefndin hafði lagt það til, að það næði fram að ganga, eins og það nú er. Þegar það var ráðið, var jeg ekki kominn í nefndina, og þar eð jeg hafði ekkert unnið að málinu, enda ósamþykkur gerðum nefndarinnar að ýmsu leyti, þótti mjer rjett að skrifa undir nál. með fyrirvara.

Um frv. skal jeg ekki fara mörgum orðum, en vil geta þess, að jeg álít, að álit það, sem kemur fram í greinargerð nefndarinnar, sje að ýmsu leyti ekki svo sanngjarnt, sem vera bæri, t. d. þau orð, að alþýðukennarar eigi við „ókjör“ að búa.

Það má vel vera, og jeg býst við að það sje rjett, að kjörum kennara sje að ýmsu leyti ábótavant, en mjer er spurn: Hvaða stjett myndi það vera í þessu fátæka þjóðfjelagi, sem á við þau kjör að búa, að hún geti ekki æskt sjer þeirra betri?

Því hefir verið slegið fram hjer í þessari háttv. deild, að illa væri farið með kennara landsins. Það má vera, og hlýtur að vera einhver sannleikur í því, en því vil jeg mótmæla, að svo sje alstaðar á landinu, og það sem mín þekking nær er það ekki svo. (Forsætisráðherra: Það var samþykt í fyrra, að svo væri. Getur verið, það er nú eftir því sem á er litið, hvort svo hefir verið. Jeg mun þó ekki hafa samþykt það. Annars býst jeg við, að mestir sjeu agnúar á meðferð kennara í kaupstöðum, en í sveitum sje ástandið betra.

Jeg finn mjer skylt í þessu sambandi að þakka háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J ), að hann mótmælti því, að sveitarlimir væru notaðir fyrir kennara. Annars gæti jeg litið svo á, að slíkt væri í mörgum tilfellum ekki frágangssök, en því mun ekki hafa verið slegið fram í góðgjörnum tilgangi. Það er heldur engin vissa fyrir því, að menn, sem einhverra ástæðna vegna hafa orðið fyrir þeirri óhepni að þurfa að þiggja sveitarstyrk, og hafa þar fyrir hlotið nafnið sveitarlimir, sjeu að neinu leyti óheppilegri til að vera kennarar en sumir af þeim, er böglast hafa gegnum kennaraskólann. Jeg man það t. d. vel, að maður nokkur, sem fyrir fám árum var bláfátækur, svo að hjelt við sveit, er álitinn nú einn með sæmilegustu kennurum.

Hæstv. forsætisráðherra sagði, að kennarastaða ætti ekki að vera höfð að aukastöðu. Jeg get vel verið þessu meðmæltur, að slíkt væri æskilegast, en hvernig hugsar hann sjer kennarastöðu þannig í fámennustu og fátækustu sveitum þessa lands, að menn geti lifað af því starfi eingöngu og þurfi ekki að hafa það að aukastarfi, þ. e. a. s. starfi yfir vetrarmánuðina, en leita sjer að annari atvinnu yfir sumarið?

Það mátti álykta af orðum hæstv. forsætisráðherra, að kennarar væru ekki starfi sínu vaxnir. Í því sambandi get jeg bætt við, að jeg hefi gert ráð fyrir, að kennarar við barnaskóla Reykjavíkur sjeu yfirleitt starfi sínu vel vaxnir. En á þingi 1915, að mig minnir, gaf einn mætur þingmaður þá lýsingu á þeim skóla, að ætla mátti, að hann væri einhver lakasta skólahola og óþrifablettur þessa lands. Og ef sú ályktun væri af því dregin, að það væri kennurunum að kenna, þá væri ekki gott í efni, en mjer dettur ekki í hug, að slíkt eigi sjer stað. En meðan heimilin eru ekki því vaxin að styrkja skólana og gera sitt til að móta unglingana, þá er ekki að búast við góðum árangri, hvað góður sem skólinn er. Jeg býst við, að það verði að vera fleira en barnaskólarnir, sem starfi að því að móta manninn, svo framarlega sem það mót á ekki að mistakast.

Því hefir margsinnis verið slegið fram, að það væri launaspursmálið, sem hjer væri aðalatriðið. Nú er það svo, að með þeim launakjörum, sem kennurum hafa verið boðin, hafa kennarastöður úti um sveitir þessa lands verið eftirsóttar stöður og enginn vandi að fá kennara. Það mun því frekar hafa verið af getuleysi og sumpart hugsunarleysi sveitarfjelaganna, ef kensla hefir ekki farið fram í hverjum hreppi, eftir því er fræðslulögin gera ráð fyrir, en því, að ekki hafi verið hægt að fá kennara. Verð jeg því að halda því fram, að það sje einungis í kaupstöðum og sjávarplássum, sem illa er farið með kennara, en alls ekki til sveita. Enda er það kunnugt, að fræðslunefndir í sveitum greiða oft hærra kaup en lögákveðið er, ef þeim líkar vel við kennarann og vilja halda honum, og hugsa þær þar, sem og rjett er í mörgum tilfellum, að verður er „verkamaðurinn launanna“.

Eins og jeg hefi þegar bent á, þá munu kennarar í kaupstað verða harðara úti nú í dýrtíðinni en kennarar til sveita, og stafar sá mismunur af því, að sveitakennarar fá líklega flestir hús, ljós og hita, ásamt fæði, án þess að það sje þeim dýrara en áður var, með öðrum orðum, hrepparnir leggja það til. Þetta verða kennarar í kaupstöðum aftur á móti að leggja sjer sjálfir til, en þetta eru þó aðallífsnauðsynjarnar.

Jeg býst við að greiða frv. þessu atkvæði mitt, enda þótt það sje ekki mitt verk, og get jeg ekki betur sjeð en að hækkun þessi, þótt lítil sje, muni þó hvern einstakling dálitlu, og er þá betur farið en heima setið, þótt fylstu óskum sje ekki fullnægt. En það atriði, að hæfir menn muni ekki fást til þessa starfs vegna launanna, ætla jeg að leiða hjá mjer og láta mjer vitrari menn leiða getum um það.

Það vil jeg þó að endingu taka fram, að jeg vildi, að hagur þjóðarbúsins leyfði það, að hægt væri að launa kennurum svo, að þeir gætu vel af lifað og væru ánægðir yfir stöðu sinni.