25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

41. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg get fyrir hönd nefndarinnar þakkað þær athugasemdir, sem gerðar hafa verið við brtt. hennar. Það var aldrei tilætlun nefndarinnar að skella skolleyrum við rjettmætum athugasemdum.

Nefndin mun taka til athugunar, hvort ekki sje ástæða til þess að undanskilja í lögunum Leikfjelag Reykjavíkur þessum skatti. Þó virðist mjer, sem það mundi gera Leikfjelaginu nauðalítið mein, þótt þetta ákvæði verði ekki sett í lögin. Bæjarstjórnin á að semja reglugerð um skattaálagninguna og stjórnarráðið að samþykkja hana. Má því búast við, að sæmilega verði farið með málið. En þó að menn treysti því, er rjett að setja það í lögin, sem eigi virðist mega vanta í þau.

Mjer virðist skemtununum ekki gera mikið til, þótt skattur þessi komist á, því að hann kemur niður á þeim, er skemtanirnar sækja. Að leggja skattinn að eins á hreinar tekjur, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) lagði til, lítur vel út í fljótu bragði. En þegar að er gætt, sjá menn, að það er ekki rjettlátt. Skemtistofnanir þær, sem hjer er aðallega um að ræða, kvikmyndahúsin, bera þunga skatta áður. Þau greiða, að jeg hygg, tekjuskatt í landssjóð og þar að auki tvöfaldan skatt í bæjarsjóð: ákveðið gjald fyrir heimild til þess að halda sýningarnar — annað kvikmyndahúsið hjer í bæ mun nú greiða 720 kr. fyrir þetta leyfi — og aukaútsvar. Þau greiða þannig til sveitarþarfa á borð við aðra, auk gjaldsins fyrir sýningarleyfið. Ekki má skilja orð mín svo, að jeg sje að telja þau undan skatti, en verði lagt á beinan arð þeirra, greiða þau þrisvar skatt, þar sem aðrir greiða að eins einu sinni. Mjer er óhætt að fullyrða, að annarsstaðar, þar sem líkur skattur er lagður á skemtanir, t. d. kvikmyndasýningar, þá er hann ákveðið hundraðsgjald af aðgöngueyrinum. Á aðgöngumiðana er prentað verð þeirra og skatturinn þar fyrir neðan. Kosti aðgöngumiði t. d. 15 aura og sje skatturinn 20%, eða 3 aurar, greiða menn alls 18 aura. En nefndinni þótti eigi ástæða til þess að setja nánari ákvæði um þetta, þar sem til er ætlast, að það yrði reglugerðaratriði, sem bæjarstjórnir sæju um.

Jeg get lofað því fyrir hönd nefndarinnar, að hún muni íhuga þær athugasemdir, er hjer hafa verið gerðar, verði brtt. hennar samþ. til 3. umr.