28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

41. mál, skemmtanaskattur

Halldór Steinsson:

Jeg gat þess, er jeg greiddi atkv. um 2. gr. þessa frv. við 2. umr., að jeg greiddi atkv. með henni með fyrirvara. Jeg hjelt þá, að nefndin mundi koma fram með brtt. til að lagfæra greinina, en þar sem hún hefir ekki gert það, þá hefi jeg ásamt öðrum háttv. þm. komið fram með brtt. um hana.

Jeg skal taka það skýrt fram, að jeg lít svo á, að allsherjarnefnd hafi breytt frv. til bóta, bæði með það, að það nái til allra skemtana, nema undanþágur sjeu veittar, t. d. við skemtanir, sem haldnar eru í góðgerðaskyni, og eins að hinu, að ætlast til þess, að þessum skatti sje varið til lista eða líknarstarfsemi. Þetta er til bóta og kemur skýrt fram í áliti nefndarinnar, en aftur kemur það ekki skýrt fram í frv., því að þótt það sje tekið fram í frv., að skatturinn eigi ekki að ganga til sveitarþarfa og ekki til að ljetta byrði skattgreiðenda, þá mætti samt verja honum til ýmislegs í þjónustu sveitarfjelagsins, sem ekki snertir listir eða líknarstarfsemi, og því er rjettara að orða greinina eins og brtt. tekur fram. Það virðist og mega ganga að því sem vísu, að reglugerð sú, sem samin yrði, yrði samin samkvæmt þeirri skoðun, sem komið hefir fram í nál., og jeg skil ekki annað en að stjórnarráðið, sem samþ. reglugerðirnar, mundi gæta þess, að þær færu ekki í bága við tilætlun þingsins í þessu máli.